MAGNA lögmenn er sameinuð lögmannsstofa við Höfðabakka

Eigendur MAGNA lögmanna, fremri röð frá vinstri: Daníel Isebarn Ágústsson, Flóki Ásgeirsson, Kristín Ólafsdóttir, aftari röð frá vinstri: Gunnar Ingi Jóhannsson, Páll Rúnar M. Kristjánsson, Einar Farestveit, Bjarki Þór Sveinsson, Þórður Bogason.

Hinn 1. september 2019 sameinuðust tvær öflugar lögmannsstofur, Lögmenn Höfðabakka og Málflutningsstofa Reykjavíkur, í eitt fyrirtæki undir heitinu MAGNA lögmenn. Lögmannsstofurnar tvær hafa vegna aukinna umsvifa átt samstarf um skeið í nokkrum málum með góðum árangri. Með sameiningu verður til lögmannsstofa sem veitir alla almenna lögfræðiþjónustu og býr yfir sérþekkingu á mörgum sviðum. Má þar nefna viðskipta- og félagarétt, þjónustu við fyrirtæki á fjármála- og orkumarkaði, skipta- og sifjarétt, sem og á sviði stjórnsýslu- og sveitarstjórnarréttar.

Skrifstofur MAGNA lögmanna eru í endurnýjuðu húsnæði að Höfðabakka 9, Reykjavík, þar sem Lögmenn Höfðabakka hafa verið til húsa síðustu fjóra áratugi. Hjá MAGNA lögmönnum starfa 13 lögmenn og lögfræðingar með mikla reynslu, bæði af störfum sínum hérlendis, í Skandinavíu og víðar í Evrópu, auk starfa fyrir fjölþjóðlegar stofnanir. 

Eigendur hins sameinaða félags eru lögmennirnir Bjarki Þór Sveinsson, Daníel Isebarn Ágústsson, Einar Farestveit, Flóki Ásgeirsson, Gunnar Ingi Jóhannsson, Kristín Ólafsdóttir, Páll Rúnar Mikael Kristjánsson og Þórður Bogason, sem jafnframt er framkvæmdastjóri MAGNA lögmanna.

Þórður segir sameininguna eðlilega þróun sem samrýmist stefnumótun beggja, að skapa stofu með fjölhæfa og öfluga liðsheild sem veiti bestu lögmannsþjónustu sem völ er á og sé í takt við kröfur samtímans um nútímalega lögmannsþjónustu, árangur og skilvirkni.

Lögmenn stofunnar hafa réttindi til að reka mál á öllum dómstigum. Meðal viðskiptavina stofunnar eru einstaklingar, hið opinbera og stofnanir þess sem og mörg stærstu einkafyrirtæki landsins. Að auki gætir stofan hagsmuna hér á landi fyrir heimsþekkt erlend fyrirtæki. MAGNA lögmenn eru í samstarfi við þekktar lögfræðistofur í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum.