Magnús Geir talinn öruggur um að verða næsti þjóðleikhússtjóri

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.

„Nú er mér ákveðinn vandi á höndum því staða þjóðleikhússtjóra er laus til umsóknar frá næstu áramótum,“ segir í bréfi, sem ber yfirskriftina: Á persónulegum nótum, og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sendi starfsfólki Ríkisútvarpsins í morgun. Þar tilkynnir hann því að hann hafi eftir nokkra umhugun ákveðið að sækjast eftir starfinu.

Eitt verst geymda leyndarmálið í stjórnkerfinu hefur þannig verið opinberað, en Viljinn hefur heimildir fyrir því að Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hafi viljað gera breytingar á yfirstjórn Þjóðleikhússins um nokkurt skeið. Af þeim sökum tók hún þá ákvörðun að auglýsa stöðu þjóðleikhússtjóra laust til umsóknar, enda þótt fimm ára skipunartíma Ara Matthíassonar sé að ljúka og hún haft heimild til að endurskipa hann til fimm ára. Nokkurr styrr hefur staðið um hans störf og kvartað oftar en einu sinni yfir framgöngu hans.

Þá er það mat margra sem þekkja til, að Þjóðleikhúsið hafi staðið algjörlega í skugga Borgarleikhússins um nokkurt skeið og sýningar Leikfélags Reykjavíkur bæði notið meiri aðsóknar og fengið betri dóma undanfarin ár.

Magnús Geir, sem var nýlega endurskipaður til fimm ára sem útvarpsstjóri, hefur gegnt því starfi frá árinu 2014, að Illugi Gunnarsson skipaði hann. Hann á hins vegar farsælan bakgrunn í leikhúsinu, sem margreyndur leikstjóri og svo reif hann upp starfið sem leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar og síðar Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.

„Ég trúi því að ég hafi heilmikið fram að færa í það starf og mig langar mikið að fá aftur að taka þátt í leikhústöfrunum. Þá hef ég að undanförnu fengið hvatningar frá leikhúsfólki sem ég tek mark á og þykir vænt um,“ segir Magnús Geir ennfremur í bréfinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. /Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Nýtt leikhúsráð skipað

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipaði um helgina nýtt þjóðleikhúsráð til næstu fjögurra ára. Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri og rithöfundur verður formaður ráðsins. Samkvæmt leiklistarlögum er þjóðleikhúsráð skipað fimm mönnum. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna. Félag íslenskra leikara tilnefnir einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi annan en þrír eru skipaðir án tilnefningar.

Auk Halldórs sitja í ráðinu: Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri og fv. borgarfulltrúi, varaformaður ráðsins skipuð án tilnefningar, Pétur Gunnarsson rithöfundur, skipaður án tilnefningar, Sigmundur Örn Arngrímsson leikari, tilnefndur af Félagi íslenskra leikara, og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands, tilnefnd af Félagi leikstjóra á Íslandi.

Halldór Guðmundsson rithöfundur.

Varamenn í ráðinu eru Jóna Finnsdóttir, Magnús Árni Skúlason og Baldur Þórir Guðmundsson skipuð án tilnefningar, Karen María Jónsdóttir tilnefnd af Félagi íslenskra leikara og Arnbjörg María Daníelsen tilnefnd af Félagi leikstjóra á Íslandi.

Í leikhúsinu allt mitt líf

Magnús Geir er áfram útvarpsstjóri, enda ráðningarferli að hefjast og umsóknarfrestur nýrunninn út. 

„Eins og þið vitið sjálfsagt, þá hafði ég verið í leikhúsinu allt mitt líf, þegar mér bauðst að taka við stjórn RÚV fyrir rúmum fimm árum. Ég er ótrúlega stoltur af þeim árangri sem við höfum náð í sameiningu á síðustu misserum og ég er mjög ánægður í starfi mínu hér.

Á hverjum degi finn ég hvað RÚV skiptir landsmenn miklu máli og hvað RÚV er mikilvægt og jákvætt hreyfiafl. Þrátt fyrir að vera ánægður í starfi og að allt gangi hér vel, þá á leikhúsið samt alltaf rosalega stóran sess í hjarta mínu. Mér finnst fátt magnaðra en að sitja í leikhúsi þar sem hópur fólks deilir upplifun og lætur hreyfa við sér með sögum sem skipta máli,“ segir Magnús Geir í bréfi sínu.

„Ég vona að þið skiljið og virðið þessa ákvörðun mína, kæru vinir. Ekkert er þó í hendi enn. Þótt ég leyfi mér að vera bjartsýnn, þá á að sjálfsögðu eftir að koma í ljós hvernig umsóknarferlið þróast og hver niðurstaðan verður. Ég þarf varla að taka fram að þótt ég hafi sótt um þessa stöðu nú, þá hefur það engin áhrif á öll þau skemmtilegu og mikilvægu verkefni sem við erum að vinna að saman. Sú góða sigling heldur áfram,“ bætir hann við.