Með réttarstöðu sakbornings síðan í júlí 2009

Sigurjón Árnason, fv. bankastjóri Landsbankans. / Skjáskot Stöð 2.

Sigurjón Árnason, fv. bankastjóri Landsbankans, hefur verið með réttarstöðu sakbornings frá því í júlí 2009 og verða mál hans endurupptökin í Hæstarétti nú á vormánuðum.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, rifjar upp á fésbókinni í morgun, að í dag séu níu ár, frá því að embætti sérstaks saksóknara lét til skarar skríða og réðist til handtöku og húsleitar hjá nokkrum fyrrum starfsmönnum Landsbanka Íslands hf.

„Sumir þeirra voru síðan lokaðir inni í fangaklefa og síðar úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þegar gæsluvarðhaldi lauk hleraði embætti sérstaks saksóknara síma starfsmannanna fyrrverandi. Kom þetta nokkuð flatt upp á hina handteknu enda höfðu sumir þeirra verið yfirheyrðir um hluta sakargifta í júlí 2009.

Ákærur litu síðan dagsins ljós í mars 2013 og dómar Hæstaréttar í október 2015 og febrúar 2016.

Málsmeðferð þessari var vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Sá dómstóll hefur ekki lokið málsmeðferð sinni. Þá var líka leitað eftir endurupptöku hér á landi eftir að í ljós kom að draga mátti í vafa hæfi dómara Hæstaréttar. Endurupptökunefnd féllst á endurupptöku árið 2019. Hæstiréttur hefur nú ákveðið að málin tvö á hendur umbjóðanda mínum Sigurjóni Þ. Árnasyni verði flutt fyrir Hæstarétti miðvikudaginn 26. febrúar og 4. mars,“ segir hann.

Og Sigurður bætir við:

„Sigurjón hefur því haft réttarstöðu sakbornings frá júlí 2009 og til dagsins í dag og hefur allan þann tíma mátt standa í því að sanna sakleysi sitt, þó það sé hlutverk ákæruvaldsins að sanna sekt hans.“