„Mér fannst eitthvað svo geggjað að kona væri að rokka þennan karlaheim“

Lóa Fatou Einarsdóttir rekstrarverkfræðingur og verkefnastjóri er 33 ára og alin upp að langmestu leyti í Hafnarfirðinum en þangað flutti hún 8 ára úr Breiðholtinu. Lóa Fatou býr núna í Garðabæ og starfar sem verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra hjá Sjóklæðagerðinni / 66°Norður.

„Ég ákvað á þriðja ári í FG að verða verkfræðingur eftir að Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan og menntuð í vélaverkfræði, var með erindi í skólanum. Mér fannst eitthvað svo geggjað að kona væri að rokka þennan karlaheim og vissi að þetta væri braut sem mig langaði að feta. Á endanum varð rekstrarverkfræði fyrir valinu þar sem ég lauk BSc prófinu í HR og tók svo masterinn í DTU í Kaupmannahöfn. Þegar ég flutti heim hóf ég störf hjá Nóa Síríusi sem sérfræðingur á gæðasviði en eftir rúm tvö ár í starfi fannst mér kominn tími á breytingar. Ég hafði samband við Helga Rúnar, forstjóra 66°Norður, þar sem mér fannst fyrirtækið vera á spennandi vegferð sem ég taldi mig geta tekið þátt í og fékk í kjölfarið starf sem verkefnastjóri á skrifstofunni hans.

Kosturinn við mitt starf er að það er síbeytilegt og fjölbreytileikinn hentar mér vel. Verkefnin eru oft umfangsmikil og tímarammi þeirra yfirleitt talin í mánuðum frekar en vikum. Á móti kemur að þau eru gríðarlega ólík og ég veit ekki alltaf hvenær næsta stóra verkefni bankar upp á“.

Á þeim árum sem Lóa Fatou hefur starfað hjá fyrirtækinu hefur hún þar á meðal verkefnastýrt uppfærslu á ERP kerfi fyrirtækisins, innleitt nýtt áætlanaferli og verkefnastýrt sölu á tæpum helmingshlut í fyrirtækinu til Mousse Partners, fjárfestingasjóðs stýrt af fjölskyldunni sem á Chanel tískuveldið.

Aðalverkefni Lóu Fatou þessa dagana er þó að vera heima hjá dóttur sinni sem fæddist í vor og ætlar að njóta þess að vera í fæðingarorlofi eitthvað fram á næsta ár. Vafalaust mun bíða hennar eitthvað spennandi verkefni þegar hún fer aftur að vinna enda hefur 66°Norður aldrei verið á jafn mikilli siglingu og nú.

Hvað er svo planið hjá Lóu Fatou það sem eftir er af sumri? 

„Nú í lok júlí förum við með fjórum öðrum fjölskyldum til Ítalíu og höldum nafnaveislu fyrir dóttur okkar fyrir þann tíma. Í ágúst fögnum við í brúðkaupi hjá góðum vinum okkar. Ætli við förum síðan ekki nokkrar ferðir í Skorradal þar sem mágkona mín og svili eiga sannkallaða bústaðarparadís og mögulega kikjum við í 1-2 útilegur“.

Til þess að fylgjast betur með Lóu Fatou heldur hún uppi Instagram aðgangi undir nafninu @loafatou


Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað planið hjá þeim sé það sem eftir er af sumri.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.