Merkasti stjórnandinn hér á landi á síðustu öld

Hörður Sigurgestsson. / Ljósmynd: Viðskiptablaðið.

Hörður Sigurgestsson, fv. forstjóri Eimskipafélagsins og stjórnarformaður Flugleiða, er látinn, ríflega áttræður að aldri.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag, að Hörður hafi látist að morgni annars í páskum. Hann fædd­ist í Reykja­vík 2. júní 1938.

Hermann Guðmundsson, fv. forstjóri N1, segir á fésbókinni að Hörður hafi verið merkasti fyrirtækjastjórnandi á Íslandi síðustu aldar.

„Undir hans stjórn varð Eimskipafélag Íslands fyrsta stóra alþjóðlega fyrirtæki landsins með stjórnkerfi sem byggði á þeim aðferðum sem best þekktust erlendis.

Hans nánustu samstarfsmenn urðu allir forystumenn í atvinnulífinu eftir að hafa yfirgefið Eimskip og báru með sér þekkingu frá honum og viðhorf.

Sjálfum hefur mér þótt sem hans hlutur í íslensku atvinnulífi sé vanmetinn af þeim sem ekki þekktu til hans,“ segir Hermann.

Fékk MBA gráðu 1968

Hörður lauk stúd­ents­prófi frá Versl­un­ar­skóla Íslands 1958 og viðskipta­fræðiprófi frá Há­skóla Íslands 1965. Hann lauk MBA-prófi 1968 frá Whart­on School, Uni­versity of Penn­sylvania í Banda­ríkj­un­um — meðal fyrstu Íslendinga sem fengu þá prófgráðu.

Enda þótt hann væri um langt skeið valdamesti maðurinn í viðskiptablokk þeirri sem kennd var við Kolkrabbann, var Hörður ekki fæddur með silfurskeið í munni; hann var af alþýðufólki kominn og þurfti snemma að hafa mikið fyrir lífinu.

Hann varð fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­sviðs Flug­leiða og gegndi því starfi þar til hann var ráðinn for­stjóri Eim­skipa­fé­lags Íslands árið 1979. Hann lét af starfi for­stjóra árið 2000. Hann sat í stjórn Flug­leiða 1984-2004, þar af sem formaður 1991-2004. Hörður tók um skeið virk­an þátt í starfi Sjálf­stæðis­flokks­ins, sat í stjórn SUS, í stjórn Varðar og í stjórn full­trúaráðs sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík. Þá var hann formaður stúd­entaráðs 1960-1962.

Hörður sat í mörg­um stjórn­um, nefnd­um og ráðum fyr­ir hið op­in­bera, einka­fyr­ir­tæki og fé­laga­sam­tök. Nefna má setu í stjórn­um Stjórn­un­ar­fé­lags­ins, Versl­un­ar­ráðsins, Vinnu­veit­enda­sam­bands­ins og Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar­inn­ar, þar sem hann var formaður um skeið.

Enda þótt hann væri um langt skeið valdamesti maðurinn í viðskiptablokk þeirri sem kennd var við Kolkrabbann, var Hörður ekki fæddur með silfurskeið í munni; hann var af alþýðufólki kominn og þurfti snemma að hafa mikið fyrir lífinu.

Hörður lét sér mjög annt um mál­efni Há­skóla Íslands. Hann sat í há­skólaráði sem full­trúi þjóðlífs skipaður af mennta­málaráðherra 1999-2003 og var formaður stjórn­ar Lands­bóka­safns-Há­skóla­bóka­safns frá 2003-2008. Í nóv­em­ber 2008 var hann gerður að heiðurs­doktor við Há­skóla Íslands.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Harðar er Áslaug Ottesen bóka­safns­fræðing­ur, f. 1940. Börn þeirra eru Inga, f. 1970, og Jó­hann Pét­ur, f. 1975. Barna­börn­in eru fimm.

Ekkert ráðið til lykta án þess að hann kæmi þar nærri

Á sjötugsafmæli Harðar minntist vinur hans, Björn Bjarnason fv. ráðherra, á merkan feril hans í viðskiptum hér á landi:

„Með ævistarfi sínu hefur Hörður markað sér góðan og öruggan sess í sögu íslensks viðskiptalífs. Hann verður ætíð talinn fremstur í hópi þeirra, sem lögðu lykilskerf af mörkum við að skapa nýjan stíl við stjórn fyrirtækja á áttunda og níunda áratugnum.

Árangurinn af þessum nýju aðferðum lét ekki á sér standa. Fyrirtæki tóku stórstígum framförum undir forystu Harðar. Enginn fór varhluta af framtaksemi hans og dugnaði. Má fullyrða, að um árabil hafi ekkert mikilvægt mál verið leitt til lykta í íslensku viðskiptalífi, án þess að Hörður kæmi að því beint eða óbeint.

Ríkur þáttur í öllum störfum Harðar er, að ekki skuli ráðist í neitt nema að vel athuguðu máli, með vísan til góðrar greiningar og með eins glögga sýn og kostur er yfir alla þætti þess, sem til meðferðar er hverju sinni.“