Hörður Sigurgestsson, fv. forstjóri Eimskipafélagsins og stjórnarformaður Flugleiða, er látinn, ríflega áttræður að aldri.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag, að Hörður hafi látist að morgni annars í páskum. Hann fæddist í Reykjavík 2. júní 1938.
Hermann Guðmundsson, fv. forstjóri N1, segir á fésbókinni að Hörður hafi verið merkasti fyrirtækjastjórnandi á Íslandi síðustu aldar.
„Undir hans stjórn varð Eimskipafélag Íslands fyrsta stóra alþjóðlega fyrirtæki landsins með stjórnkerfi sem byggði á þeim aðferðum sem best þekktust erlendis.
Hans nánustu samstarfsmenn urðu allir forystumenn í atvinnulífinu eftir að hafa yfirgefið Eimskip og báru með sér þekkingu frá honum og viðhorf.
Sjálfum hefur mér þótt sem hans hlutur í íslensku atvinnulífi sé vanmetinn af þeim sem ekki þekktu til hans,“ segir Hermann.
Fékk MBA gráðu 1968
Hörður lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1958 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1965. Hann lauk MBA-prófi 1968 frá Wharton School, University of Pennsylvania í Bandaríkjunum — meðal fyrstu Íslendinga sem fengu þá prófgráðu.
Enda þótt hann væri um langt skeið valdamesti maðurinn í viðskiptablokk þeirri sem kennd var við Kolkrabbann, var Hörður ekki fæddur með silfurskeið í munni; hann var af alþýðufólki kominn og þurfti snemma að hafa mikið fyrir lífinu.
Hann varð framkvæmdastjóri fjármálasviðs Flugleiða og gegndi því starfi þar til hann var ráðinn forstjóri Eimskipafélags Íslands árið 1979. Hann lét af starfi forstjóra árið 2000. Hann sat í stjórn Flugleiða 1984-2004, þar af sem formaður 1991-2004. Hörður tók um skeið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, sat í stjórn SUS, í stjórn Varðar og í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þá var hann formaður stúdentaráðs 1960-1962.
Hörður sat í mörgum stjórnum, nefndum og ráðum fyrir hið opinbera, einkafyrirtæki og félagasamtök. Nefna má setu í stjórnum Stjórnunarfélagsins, Verslunarráðsins, Vinnuveitendasambandsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar, þar sem hann var formaður um skeið.
Enda þótt hann væri um langt skeið valdamesti maðurinn í viðskiptablokk þeirri sem kennd var við Kolkrabbann, var Hörður ekki fæddur með silfurskeið í munni; hann var af alþýðufólki kominn og þurfti snemma að hafa mikið fyrir lífinu.
Hörður lét sér mjög annt um málefni Háskóla Íslands. Hann sat í háskólaráði sem fulltrúi þjóðlífs skipaður af menntamálaráðherra 1999-2003 og var formaður stjórnar Landsbókasafns-Háskólabókasafns frá 2003-2008. Í nóvember 2008 var hann gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands.
Eftirlifandi eiginkona Harðar er Áslaug Ottesen bókasafnsfræðingur, f. 1940. Börn þeirra eru Inga, f. 1970, og Jóhann Pétur, f. 1975. Barnabörnin eru fimm.
Ekkert ráðið til lykta án þess að hann kæmi þar nærri
Á sjötugsafmæli Harðar minntist vinur hans, Björn Bjarnason fv. ráðherra, á merkan feril hans í viðskiptum hér á landi:
„Með ævistarfi sínu hefur Hörður markað sér góðan og öruggan sess í sögu íslensks viðskiptalífs. Hann verður ætíð talinn fremstur í hópi þeirra, sem lögðu lykilskerf af mörkum við að skapa nýjan stíl við stjórn fyrirtækja á áttunda og níunda áratugnum.
Árangurinn af þessum nýju aðferðum lét ekki á sér standa. Fyrirtæki tóku stórstígum framförum undir forystu Harðar. Enginn fór varhluta af framtaksemi hans og dugnaði. Má fullyrða, að um árabil hafi ekkert mikilvægt mál verið leitt til lykta í íslensku viðskiptalífi, án þess að Hörður kæmi að því beint eða óbeint.
Ríkur þáttur í öllum störfum Harðar er, að ekki skuli ráðist í neitt nema að vel athuguðu máli, með vísan til góðrar greiningar og með eins glögga sýn og kostur er yfir alla þætti þess, sem til meðferðar er hverju sinni.“