„Mjög bjartsýnn á framtíðina“

Martin Hermannsson er 24 ára og spilar sem atvinnumaður í körfubolta. Spilar hann með Alba Berlín í Þýskalandi. Martin er fæddur og uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur en býr nú í Berlín ásamt kærustu sinni Önnu Maríu Bjarnadóttur og eins árs gömlum syni þeirra Manúel Martinssyni. 

Martin hefur æft körfubolta síðan hann var 5-6 ára gamall. Spilaði hann upp alla yngri flokka með KR og varð síðan tvisvar Íslandsmeistari í meistaraflokki árin 2011 og 2014. Árið 2014 fór hann svo í nám í Bandaríkjunum í 2 ár, nánar tiltekið Brooklyn New York ásamt því að spila körfubolta þar. 

Árið 2016 fór hann svo í atvinnumennsku til Frakklands í 2 ár og núna í ár spilaði hann með Alba Berlín í Þýskalandi og er einnig samningsbundinn þeim fyrir næsta ár. Alba Berlín er talið eitt af 20 bestu liðum í Evrópu og þýska deildin ein af topp 5 bestu deildum í heiminum.

Martin er mjög bjartsýnn á framtíðina. Hann stefnir að því að ná eins langt og hægt er í körfuboltanum á næstu árum og á sama tíma að vera eins góður pabbi og kærasti og hann getur verið. 

,,Stefnan er líka alltaf sett á að klára viðskiptafræðina í Háskólanum. Svo er maður alltaf opinn fyrir einhverjum viðskiptapælingum ótengt körfuboltanum. Ég sé mig svo ekki flytja heim til Íslands fyrr en ferillinn er búinn og ætli það séu ekki svona 10-12 ár eftir af honum ef að allt gengur upp’’.

Martin er á Facebook eins og flestir íslendingar en eyðir þó mestum sínum tíma á Instagram. Þar getur fólk fundið hann undir nafninu @martinhermanns

Hvað er svo planið hjá Martin þar sem eftir er sumri ? 

,,Við fjölskyldan ætlum að eyða öllu sumrinu á Íslandi. Ég fór reyndar ekki í sumarfrí fyrr en um mánaðarmótin í júlí og fer það að klárast. Mér finnst hvergi betra að vera á sumrin en á íslandi. Það jafnast ekkert á við það að koma heim, fara í útilegu, upp í sumarbústað, hitta vini og fjölskyldu og fara í golf. Grilla, fara og kaupa sér bragðaref og ég gæti haldið endalaust áfram. 

Ég ætla allavega að reyna að eyða sem mestum tíma með fjölskyldu og vinum’’.


Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað þau hafa gert í sumar og hvað planið sé þar til sumri lýkur.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.