NÆRMYND VILJANS:
Eins og greint hefur verið frá í fréttum, hefur stjórn Arion banka ráðið Benedikt Gíslason verkfræðing í starf bankastjóra og mun hann hefja störf 1. júlí næstkomandi. Benedikt hefur umfangsmikla reynslu af störfum á íslenskum fjármálamarkaði undanfarna tvo áratugi.
Viljinn birtir hér nærmynd af bankastjóranum nýja og stiklar á stóru í ferli hans í viðskiptum og stjórnmálum hér á landi.
Benedikt hóf störf hjá FBA (síðar Íslandsbanka) árið 1998, sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Straumi-Burðarás, var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá FL Group og framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka. Benedikt var aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra og sem slíkur varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Hann sat í stjórn Kaupþings á árunum 2016-2018. Benedikt hefur verið ráðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka og hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2018. Benedikt er verkfræðingur frá Háskóla Íslands.
Getur komið Arion banka á rétta braut
„Benedikt hefur mjög skýra sýn á framtíð bankans og hvernig eigi að mæta þeim áskorunum sem fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir á næstu árum. Rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja um allan heim er að breytast hratt, ekki síst með auknu vægi stafrænnar fjármálaþjónustu,“ sagði Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka í tilkynningu þegar greint var frá ráðningunni. Bætti hann því við, að það væri mikill styrkur fyrir bankann að fá til forystu einstakling með jafnmikla reynslu og þekkingu og Benedikt býr yfir.
Dr. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, vann með Benedikt hjá MP banka og síðar Kviku og einnig í ráðgjafahópnum um losun hafta. Hann ber honum afar vel söguna í samtali við Viljann.
„Benedikt er afburðaklár, hefur mikla bankareynslu og þekkir vel til Arion banka enda hefur hann setið í stjórn bankans. Þá hefur hann komið að lykilverkefnum við endurreisn íslensks efnahagslífs eins og losun hafta,“ segir hann.
Sigurður segir að verkfræðingurinn Benedikt sé með stóru myndina á hreinu, mjög góður að greina stöður og taka ákvarðanir.
„Þá hefur hann lag á því að fá fólk til fylgis við sig. Ég hef fulla trú á því að honum takist að koma Arion banka á rétta braut,“ bætir hann við.
Undir þetta tekur Sigurður Atli Jónsson, stjórnarformaður Íslenskra verðbréfa, en hann var áður yfirmaður Benedikts sem bankastjóri MP banka og síðar Kviku:
„Það er gott að vinna með Benna. Hann er íhugull, yfirvegaður og skapandi og hefur góðan skilning á rekstri fjármálafyrirtækja. Benni þekkir vel til Arion banka í gegnum störf sín fyrir Kaupþing og kemur vel undirbúinn til starfans,“ segir hann.
Engin læti í Benna
Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, vann við hlið Benedikts sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hún segir að hann segi einstaklega skemmtilega frá:
„Benni er einstaklega klár, skemmtilegur og traustur og það er mjög gott að vinna með honum. Hann setur sig afar vel inn í hluti og hefur gott lag á að deila þekkingu með öðrum,“ segir hún.
„Það eru engin læti í Benna en hann verður samt auðveldlega miðpunktur í góðra vina hópi, enda segir hann svo skemmtilega frá,“ bætir hún við.
Sjálfur er Benedikt spenntur fyrir nýjum áskorunum:
„Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þetta spennandi verkefni. Arion banki er gott fyrirtæki og gegnir mikilvægu hlutverki. Ég þekki bankann vel og hlakka til kynnast honum og hans öfluga starfsfólki enn betur. Verkefnið framundan er að halda áfram að þróa starfsemi og þjónustu bankans og veita viðskiptavinum góða og nútímalega fjármálaþjónustu. Arion banki nýtur ákveðinnar sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði þegar horft er til stóru bankanna þriggja sem almenningshlutafélag skráð í kauphallir á Íslandi og í Svíþjóð,“ segir Benedikt Gíslason.