„Norrænt samstarf er og hefur verið mitt líf og yndi undanfarin ár og ég veit af eigin raun hversu ótrúlega mikilvægt það er,“ segir Hrannar B. Arnarsson í samtali við Viljann, en hann er nýr formaður Norræna félagsins í Reykjavík.
Björg Eva Erlendsdóttir, sem verið hefur formaður félagsins undanfarin ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Nýr og formaður og stjórn voru því sjálfkjörin með lófataki, en í stjórninni eru: Helgi Þorsteinsson, Kristján Sveinsson, Hildur Helga Gísladóttir, Ann-Sofie Gremaud og varamennirnir Baldvin Þór Bergsson, Sigurður Ólafsson, María Þorgeirsdóttir og Sesselja G. Kristinsdóttir.
„Ég leyfi mér raunar að fullyrða að norrænt samstarf sé á margan hátt lykillinn að þeirri fordæmalausu framþróun og velmegun sem norrænu löndin hafa notið undanfarna áratugi, enda nær það um flest svið samfélagsins og er nánara og skipulegra en samstarf nokkurra annarra ríkja í heiminum,“ segir Hrannar.
„Ég vona að mér og nýrri stjórn Norræna félagsins í Reykjavík takist að leggja okkar af mörkum í þessum efnum og að félagið verði skemmtilegur og uppbyggjandi vettvangur fyrir áhugafólk um norrænt samstarf og menningu á komandi tíð,“ bætir hann við.
Hrannar hefur komið víða við á undanförnum árum, en hann er m.a. fv. borgarfulltrúi í Reykjavík, var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar um skeið, lengi aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og framkvæmdastjóri þingflokks jafnaðarmanna í Norðurlandaráði um fimm ára skeið.