Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands (og þar áður framkvæmdastjóri sambandsins) hlaut ekki stuðning þeirra aðila sem sitja nú í forystu verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Þess vegna kom hann ekki til álita sem nýr ríkissáttasemjari.
Í Markaði Fréttablaðsins í dag segir að fyrirfram hefði verið talið að valið hafi fyrst og fremst staðið á milli Gylfa Arnbjörnssonar, fyrrverandi forseta Alþýðusambands Íslands, og Rannveigar Sigurðardóttur varaseðlabankastjóra en bæði hafi þau mikla reynslu af vinnumarkaðsmálum og tengsl við verkalýðshreyfinguna.
„Það hjálpaði Gylfa hins vegar ekki í skipunarferlinu, að sögn þeirra sem þekkja til mála, að forystusveit hans gamla félags hafi alls ekki viljað styðja hann í embættið, enda þarf ríkissáttasemjari að njóta trausts allra aðila
vinnumarkaðarins. Þar andar köldu á milli,“ segir á baksíðu Markaðarins.
Gylfi er ekki hátt skrifaður hjá Drífu Snædal, forseta ASÍ, eða Vilhjálmi Birgissyni, varaforseta sambandsins. Ekki heldur hjá þeim Sólveigu Önnu Jónsdóttur í Eflingu eða Ragnari Þór Ingólfssyni í VR.
Aðalsteinn Leifsson, framkvæmdastjóri hjá EFTA og settur aðstoðarsáttasemjari, varð því fyrir valinu, eins og greint var frá í gær.