Nýr formaður nefndar um málefni útlendinga og innflytjenda

Árni Helgason lögmaður.

Árni Helgason, lögmaður og fv. formaður Heimdallar, tekur við formennsku í þingmannanefnd um málefni útlendinga og innflytjenda. Hann tekur við formennskunni af Hildi Sverrisdóttur, aðstoðarmanni Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Árni Helgason er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og rekur lögmannsstofuna JÁS lögmenn. Hann starfaði einnig í kærunefnd útlendingamála frá 2016-2020.

Á vef dómsmálaráðuneytisins segir að nefndinni hafi verið komið á fót í haust og muni hún verða sam­eig­in­legur vett­vangur þing­manna og full­trúa ráð­herra og ráðu­neyta fyrir upp­lýs­inga­öflun og upp­lýs­inga­skipti um málaflokkinn og til að vera til sam­ráðs um fram­kvæmd útlend­inga­laga og eftir atvikum end­ur­skoðun laga og reglu­gerða á mál­efna­svið­inu með mann­úð­ar­sjón­ar­mið og skil­virka þjón­ustu til grund­vall­ar.

Þá verða einnig þær breytingar á nefndinni að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, tekur sæti í nefndinni og tekur við af Stefaníu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra þingflokks Viðreisnar.

Lára Björg Björnsdóttir, ráðgjafi ríkisstjórnar í jafnréttismálum, kemur einnig inn í nefndina, tilnefnd af forsætisráðuneytinu. Tekur hún við af Höllu Gunnarsdóttur sem látið hefur af störfum í forsætisráðuneytinu og er orðin framkvæmdastjóri ASÍ.