Vilborg Helga Harðardóttir er nýr forstjóri fyrirtækisins Já hf. Hún tekur við um mánaðarmótin af Sigríði Margréti Oddsdóttur sem hefur óskað eftir að láta af störfum.
Vilborg Helga hefur starfað lengi innan Já, undanfarin ár sem rekstrarstjóri. Hún er MBA frá Háskólanum í Reykjavík og BA í sálfræði frá Háskóla Íslands.
Já hf. er rekstrar- og móðurfélag fjölmargra vörumerkja og fyrirtækja á sviði upplýsingatækni á Íslandi. Vörumerkin sem heyra undir samstæðuna eru: Já.is, upplýsingavefur, app og númer, Gallup á Íslandi, sem er leiðandi á sviði markaðsrannsókna, Leggja, sem er greiðslulausn fyrir bílastæðagjöld og Markaðsgreining, sem veitir upplýsingar um sölutölur á smásölumarkaði á Íslandi.
Hjá félaginu eru um 115 starfsmenn í 75 stöðugildum. Félagið var stofnað árið 2005 og hefur verið á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki allt frá því að listinn var fyrst gefinn út.
„Félagið vinnur samkvæmt skýrri stefnu og sinnir einnig mikilli nýsköpun og þróunarvinnu. Hjá félaginu starfar öflugur hópur starfsfólks, sem um þessar mundir er að vinna að mörgum spennandi viðskiptatækifærum. Ég hlakka mikið til framtíðarinnar í þessu nýju hlutverki hjá Já,“ segir Vilborg í tilkynningu frá félaginu.
Þar segir jafnframt að Sigríður Margrét taki við breytingarnar sæti í stjórn félagsins, enda er hún stór hluthafi.
„Já er framúrskarandi fyrirtæki með einstaka menningu og mikla tæknihæfni, tvennt sem ég tel ómissandi fyrir árangursrík fyrirtæki í dag. Ég mun eiga áfram hlutinn minn í félaginu og vinna áfram að hag þess en með öðrum hætti,“ segir Sigríður Margrét.