Nýr forstjóri Reiknistofu bankanna

Ragnhildur Geirsdóttir.

Ragnhildur Geirsdóttir er nýr forstjóri Reiknistofu bankanna. Hún er hætt störfum sem aðstoðarforstjóri WOW að eigin ósk og tekur Skúli Mogensen, forstjóri félagsins, við starfsskyldum hennar hjá félaginu.

Ragnhildur hefur m.a. verið forstjóri FL Group, forstjóri Promens og framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatækni hjá Landsbankanum.

Hún er verkfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt. Hún lauk CS prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1995, MS prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Wisconsin árið 1996 og MS prófi í viðskiptafræði frá sama skóla 1998.

„RB er spennandi fyrirtæki sem á sér langa sögu. Hjá fyrirtækinu starfar hópur af afar hæfu starfsfólki sem verður gaman að vinna með að þeim breytingum sem framundan eru,“ segir Ragnhildur í tilkynningu frá Reiknistofu bankanna til fjölmiðla.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi og stjórnarformaður RB segir: „Ég fagna komu Ragnhildar til RB. Hún er öflugur leiðtogi með víðtæka reynslu sem mun nýtast RB á þeim spennandi tímum sem eru framundan. Fyrirtækið hefur verið að taka miklum breytingum á síðustu árum og munu þær halda áfram enda leikur RB stórt hlutverk í að auka gæði og hagkvæmni í fjármálakerfinu á Íslandi, m.a. með rekstri helstu grunnkerfa fjármálafyrirtækja“.