Okkar eigin Messi

Víkingur Heiðar sló í gegn á BBC proms. / BBC.

Við Íslendingar stærum okkur jafnan af íþróttaafrekum landa okkar, þá sjaldan að tækifæri gefst til, en ekki síður af menningarsigrum okkar fólks á alþjóðavísu. Við gleðjumst þegar rithöfundum okkar er hampað og þjóðin sameinaðist í sigurvímu þegar Hildur Guðnadóttir rakaði að sér verðlaunum á síðasta ári, þar á meðal sjálfum Óskarnum fyrir kvikmyndatónlist.

Um helgina varð ljóst (hafi einhver ekki áttað sig á því fyrir löngu) að í klassískri tónlist eigum við Íslendingar okkar eigin Lionel Messi í píanóleik, því þegar Víkingur Heiðar Ólafsson debúteraði á BBC Proms var honum tekið með kostum og kynjum og umsögnum svo lofsamlegum, að ekki fer á milli mála að þar fer nú einn fremsti píanisti heims um þessar mundir.

Það eina sem kom á óvart við frammistöðuna var að þetta væri í alvörunni frumraun þessa mikla snillings á þessari tónlistarveislu breska ríkisútvarpsins í Royal Albert Hall í Lundúnum.

Það er gæfa hverri þjóð að eiga listamenn eins og Víking Heiðar…