Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra hefur skipað nýja stjórn Byggðastofnunar til eins árs og var skipan hennar kynnt á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í Bolungarvík í gær. Óli Halldórsson frá Húsavík verður nýr formaður stjórnar en Guðný Hildur Magnúsdóttir frá Bolungarvík nýr varaformaður.
Óli hefur lengi verið einn forystumaður VG norðan heiða, vinsæll og virtur. Hann var sveitarstjórnarmaður og varaþingmaður VG og fyrir síðustu kosningar hafði hann sigur í forvali flokksins eftir brotthvarf Steingríms J. Sigfússonar úr stjórnmálum. Hann dró svo framboð sitt til baka af persónulegum ástæðum og tók Bjarkey M. Olsen sæti hans sem oddviti flokksins, og nú er hún svo orðin matvælaráðherra.
„Byggðastofnun hefur með verkum sínum áunnið sér traust samfélagsins alls. Stofnunin gegnir lykilhlutverki í því að greina hvað þurfi til að byggðir landsins geti blómstrað og vinnur að fjölmörgum mikilvægum verkefnum hverju sinni,“ segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Ný stjórn Byggðastofnunar
Samkvæmt lögum um Byggðastofnun skipar ráðherra sjö einstaklinga í stjórn stofnunarinnar til eins árs í senn. Ný stjórn Byggðastofnunar er þannig skipuð:
- Óli Halldórsson, Húsavík, formaður
- Guðný Hildur Magnúsdóttir, Bolungarvík, varaformaður
- Halldóra Kristín Hauksdóttir, Akureyri.
- Haraldur Benediktsson, Hvalfjarðarsveit.
- Karl Björnsson, Reykjavík.
- María Hjálmarsdóttir, Eskifirði.
- Oddný Árnadóttir, Reykjavík.
Varamenn eru:
- Álfhildur Leifsdóttir, Sauðárkróki,
- Sigrún Birna Steinarsdóttir, Reykjavík
- Rúnar Þór Guðbrandsson, Mosfellsbæ.
- Lilja Björg Ágústsdóttir, Borgarbyggð.
- Valgerður Rún Benediktsdóttir, Reykjavík.
- Valgarður Lyngdal Jónsson, Akranesi.
- Jónína Björk Óskarsdóttir, Kópavogi.
Þau sem yfirgáfu stjórnina að þessu sinni eru Rúnar Þór Guðbrandsson og Jónína Björk Óskarsdóttir. Á fundinum var þeim þakkað fyrir vel unnin störf í þágu byggðamála.