Óvænt ráðinn annar ritstjóra Fréttablaðsins

Davíð Stefáns­son, ráðgjafi, þáttastjórnandi og fv. formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, hefur verið ráðinn rit­stjóri Frétta­blaðsins. Hann tekur við sem annar tveggja rit­stjóra blaðsins frá 1. júní.

Þannig hljóðaði frétt sem birtist nú fyrir stundu á vef Fréttablaðsins. Er óhætt að segja að ráðning Davíðs komi á óvart, enda hann ekki þekktur fyrir störf sín við blaðamennsku og þannig munu blaðamenn á Fréttablaðinu hafa verið eitt stórt spurningamerki þegar tíðindin spurðust þeim.

„Það fóru bara allir í tölvuna til að gúggla hvaða maður þetta er,“ sagði einn starfsmaður blaðsins í samtali við Viljann.

Davíð varð stúdent frá Mennta­skólanum á Akur­eyri árið 1985, stjórn­mála­fræðingur frá Há­skóla Ís­lands 1995 og hlaut meistara­gráðu í stjórn­sýslu­fræðum frá Harvard há­skóla, John F. Kenne­dy School of Govern­ment, Banda­ríkjum árið 1997.

Hann hefur rekið eigið ráð­gjafar­fyrir­tæki frá árinu 2009 einkum á sviði við­skipta- og verk­efna­þróunar með á­herslu á endur­nýjan­lega orku. Við­skipta­vinir fyrir­tækisins eru al­þjóð­leg ráð­gjafa­fyrir­tæki, bankar, fjár­festinga­sjóðir og orku­fyrir­tæki í Norður og Suður Ameríku, Afríku, Evrópu og Asíu auk Ís­lands. Þá hefur Davíð verið stjórnarmaður í Silicor Materials Iceland Holding hf. og talsmaður fyrirtækisins hér á landi, en það félag hugðist reisa mikla verksmiðju á Grundartanga.

„Það er mikil og skemmti­leg á­skorun að takast á við rit­stjóra­starf lang­mest lesna blaðs landsins. Á Frétta­blaðinu vinnur mjög hæfi­leika­ríkt og út­sjónar­samt fólk. Í sam­vinnu við þann sterka hóp vonast ég til að efla blaðið enn frekar sem helsta dag­blað landsins,“ segir Davíð.

Hann hefur undanfarið haft umsjón með vikulegum þætti um alþjóðamál á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Hann mun starfa sem ritstjóri við hlið Ólafar Skaftadóttur.