Davíð Stefánsson, ráðgjafi, þáttastjórnandi og fv. formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, hefur verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Hann tekur við sem annar tveggja ritstjóra blaðsins frá 1. júní.
Þannig hljóðaði frétt sem birtist nú fyrir stundu á vef Fréttablaðsins. Er óhætt að segja að ráðning Davíðs komi á óvart, enda hann ekki þekktur fyrir störf sín við blaðamennsku og þannig munu blaðamenn á Fréttablaðinu hafa verið eitt stórt spurningamerki þegar tíðindin spurðust þeim.
„Það fóru bara allir í tölvuna til að gúggla hvaða maður þetta er,“ sagði einn starfsmaður blaðsins í samtali við Viljann.
Davíð varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1985, stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands 1995 og hlaut meistaragráðu í stjórnsýslufræðum frá Harvard háskóla, John F. Kennedy School of Government, Bandaríkjum árið 1997.
Hann hefur rekið eigið ráðgjafarfyrirtæki frá árinu 2009 einkum á sviði viðskipta- og verkefnaþróunar með áherslu á endurnýjanlega orku. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru alþjóðleg ráðgjafafyrirtæki, bankar, fjárfestingasjóðir og orkufyrirtæki í Norður og Suður Ameríku, Afríku, Evrópu og Asíu auk Íslands. Þá hefur Davíð verið stjórnarmaður í Silicor Materials Iceland Holding hf. og talsmaður fyrirtækisins hér á landi, en það félag hugðist reisa mikla verksmiðju á Grundartanga.
„Það er mikil og skemmtileg áskorun að takast á við ritstjórastarf langmest lesna blaðs landsins. Á Fréttablaðinu vinnur mjög hæfileikaríkt og útsjónarsamt fólk. Í samvinnu við þann sterka hóp vonast ég til að efla blaðið enn frekar sem helsta dagblað landsins,“ segir Davíð.
Hann hefur undanfarið haft umsjón með vikulegum þætti um alþjóðamál á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Hann mun starfa sem ritstjóri við hlið Ólafar Skaftadóttur.