Patience Adjahoe formaður kjördæmafélags Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Ný stjórn Kjördæmafélags Miðflokksins í Suðurkjördæmi var kosin á aðalfundi félagsins á dögunum, að því er greint frá í tilkynningu frá Miðflokknum.

Formaður er Patience Adjahoe Karlsson, varaformaður er Tómas Ellert Tómasson, gjaldkeri er Guðrún Kr. Jóhannsdóttir. Aðrir stjórnarmenn eru Guðni Hjörleifsson og Friðrik Ólafsson. Varamenn eru þeir Elís Anton Sigurðsson og Eggert Sigurbergsson.

Patience kemur frá Gana, en hefur búið hér um árabil með fjölskyldu sinni. Hún er kennari og með MBA-próf frá Háskóla Íslands og hefur einnig staðið í verslunarrekstri. Þá hefur hún verið forkona í félagi Kvenna af erlendum uppruna hér á landi.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa óskaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins nýjum formanni og nýrri stjórn til hamingju með kjörið. Jafnframt þakkaði hann fráfarandi formanni Bjarna Gunnólfssyni og fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf.

„Sigmundur Davíð fór einnig yfir það helsta sem er að gerast í stjórnmálunum og myndaðist góð umræða og fjöldi fyrirspurna,“ segir ennfremur í tilkynningunni.