Ráðherra tekur afstöðu með unga fólkinu

Til eftirbreytni er sú ákvörðun Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að opinberu háskólarnir fái ekki heimild til að hækka skrásetningargjöld líkt og skólarnir sendu ráðuneytinu erindi um, en óskað var eftir heimild til að hækka gjöldin úr 75.000 kr. í 95.000 kr.

,,Háskólanemar eru í hópi þeirra sem eru annað hvort nýkomin út á húsnæðismarkaðinn eða eru í þeim sporum að reyna að koma þaki yfir höfuðið,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, á vef ráðuneytisins. ,,Sá munur er einnig á háskólanemum á Íslandi og í nágrannaríkjunum að stærri hluti þeirra á ung börn og er að stíga sín fyrstu skref í að hlúa að fjölskyldu. Háir vextir, erfiðleikar með leikskólapláss og ýmsar aðrar aðstæður efnahagslífsins bitna nú a háskólanemum í þeim mæli að mikilvægt er að opinberir aðilar auki ekki á útgjöld þeirra.”

Fjárframlög til háskóla hafa hækkað og árið 2024 verður aukningin strax um 3,5 ma. kr. frá fyrri áætlunum. Til ársins 2028 er gert ráð fyrir 6 ma. kr. aukningu fjárframlaga til háskólastigsins. ,,Það er mikilvægt að opinberir háskólar, líkt og aðrir opinberir aðilar, sýni aðhald í rekstri og finni leiðir til að sækja fram og auka gæði náms án þess að hækka skrásetningargjöld,” segir ráðherra um ákvörðunina.

Mikilvægt er að fleiri forystumenn hér á landi tali og vinni með þessum hætti. Sjálfvirkar hækkanir á litlum og stórum hlutum eru að sliga almenning og viðhalda verðbólgunni, þvert á fyrirheit stjórnvalda. Það er heilbrigt viðhorf að líka megi fara betur með opinbert fé og forgangsraða á nýjan leik. Að ekki sé alltaf sjálfsagður hlutur að biðja um meira.

Áslaug Arna fær stórt prik fyrir þetta.