Ráðinn yfirlæknir ígræðslulækninga á Landspítala

Jóhann Jónsson skurðlæknir hefur verið ráðinn yfirlæknir ígræðslulækninga á Landspítala. 

Jóhann lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands og fór síðan í sérnám í almennum skurðlækningum og í framhaldi af því í undirsérgrein í ígræðslulækningum við Georgetown University Hospital Washington  Hospital Center í Washington DC í Bandaríkjunum.  Jóhann er einnig með próf  frá Johns Hopkins háskólanum í rekstri  heilbrigðisstofnana.  

Jóhann starfaði um árabil sem ígræðsluskurðlæknir og var síðastliðin 26 ár yfirlæknir kviðaholslíffæraígræðsludeildar Inova Fairfax spítalans í Virginíuríki . Frá árinu 2003 hefur Jóhann komið reglulega til Íslands til að gera nýrnaígræðslur frá lifandi gjöfum á Landspítala, að því er segir í frétt frá spítalanum.

Jóhann Jónsson hefur nú tekið að sér leiðtogahlutverk á sviði ígræðslulækninga. Hann mun vinna í því að koma á ígræðslum frá látnum líffæragjöfum og eftir því sem við verður komið frá íslenskum líffæragjöfum. Til þessa hafa líffæri verið fengin hjá lifandi gjöfum eingöngu . Hann mun einnig vinna að uppbyggingu heildstæðrar líffæraígræðsluþjónustu og þjálfunar ígræðsluteymis á Íslandi til framtíðar.

Hlutverk Jóhanns verður einnig að vinna að rannsóknar- og þróunarverkefnum, m.a í samvinnu við Embætti landlæknis, vera fulltrúi Íslands og Landspítala í Scandia transplant og að sinna öðrum samstarfssamningum ígræðslumála.