Ræða Þórðar Más í heild sinni: Lög um kynjakvóta misnotuð í valdabaráttu lífeyrissjóða

Viljinn birtir hér í heild sinni, umtalaða ræðu sem Þórður Már Jóhannesson, fjárfestir, hélt á aðalfundi Festi hf í dag, áður en kosið var til stjórnar félagsins:

„Fundarstjóri, kæru hluthafar.

Nú á vormánuðum eru nákvæmlega 10 ár síðan við hópur einkafjárfesta fjárfestum í Festi hf. ásamt lífeyrissjóðum og fleiri fagaðilum.  Sú vegferð gekk vel upp og samstarfið var mjög gott.  

Við einkafjárfestar erum langtímafjárfestar í þessu verkefni og höfum sýnt fyrirtækinu mikið traust í þennan áratug.

Við sameiningu Festi og N1 árið 2018 tók ég sæti í stjórn sameinaðs félags eftir beiðni frá fulltrúa eins stærsta lífeyrissjóðs landsins, LSR, sem nú reynir hvað hann getur að koma í veg fyrir kosningu mína eins og komið hefur fram í fjölmiðlum.  Einnig má benda á að í tvígang hafa einkafjárfestum sem eiga umtalsverða eignarhluti í Festi verið hafnað af hálfu hluthafa.

Ég ásamt mínum félögum og stjórnarfólki höfum lagt mikla vinnu í uppbygginu þessa félags síðustu ár, bæði fyrir sameiningu við N1 og eftir.  Við berum miklar taugar til félagsins og höfum talið það áhugaverðan fjárfestingarkost sem á sér fjölmörg tækifæri.

Í byrjun árs sendi Tilnefningarnefnd Festi stærstu hluthöfum bréf þar sem þeim var gefinn kostur á að funda með nefndinni, sem ég og gerði.  

Á þeim fundi kom til umræðu hvort ég hefði í hyggju að bjóða mig aftur fram til stjórnarstarfa í Festi.  Ég hafði ekki leitt hugann að því en fljótlega eftir þá fundi fékk ég mikla hvatningu frá einkahluthöfum og fleiri eigendum félagsins um að bjóða mig fram til stjórnar sem fulltrúi einkafjárfesta eins og áður.  

Ég skýrði nefndinni frá því sjónarmiði mínu að ég væri eingöngu tilbúinn til að bjóða mig fram ef ég fengi framgöngu hjá nefndinni varðandi uppstillingu á stjórn, annars færi ég ekki fram.

Ég fundaði síðan aftur með nefndinni þar sem nefndarmenn fóru vel yfir mínar áherslur og fékk nefndin allar upplýsingar um mig og þau mál sem hafa snúið hafa að mér.  Einnig ræddi nefndinn við lögmann minn. 

Þegar sú niðurstaða nefndarinnar lá fyrir að tilnefna mig sem einn af 5 stjórnarmönnum í Festi fyrir þennan aðalfund þá var ég virkilega þakklátur fyrir það traust sem mér var sýnt.  En það leið ekki á löngu áður en ég fór að finna fyrir óróa að ég tæki hér aftur sæti í stjórn félagsins, félags sem ég gjörþekki og þar sem ég hef að mínu mati mikið til málanna að leggja. 

Áhugavert er að í skýrslu Tilnefningarnefndar kemur fram að hluthafar, sem samanlagt fara með 45% hlutafjár og auk óformlegra samtala nefndarinnar við aðra hluthafa Festi, höfðu allir jákvæða afstöðu til um aðkomu einkafjárfesta að stjórn Festi.  Fulltrúar þeirra lífeyrissjóða, sem rætt var við, lögðu áherslu á að þá væri um að ræða einkafjárfesta með langtímasjónarmið.  Þarna kemur vilji hluthafa fram þegar þeir sitja einir og tjá sína skoðun en það breyttist hratt þegar áhrifafjárfestarnir stóru fóru á kreik.

Nú ber svo við að tveir lífeyrissjóðir hafa opinberlega lýst yfir óánægju með þessa tillögu nefndarinnar.  Framkvæmdastjóri annars sjóðsins skrifar grein í fjölmiðla og gagnrýnir þau vinnubrögð tilnefningarnefnda almennt að gera tillögu að uppstillingu að stjórn fyrir aðalfund.  Hún leggur til að nefndinn skili lista fyrir hæfa frambjóðendur til aðalfundar.  Mér er ekki kunnugt um hvort að þessir lífeyrissjóðir hafi gert sömu athugasemdir á fundum sínum með tilnefningarnefnd Festi. Ég skora á þá að upplýsa um það. 

Framkvæmdastjóri hins sjóðsins stígur fram í fjölmiðlum og segir mig ekki njóta stuðnings þess sjóðs sem hún stýrir.  Ég hélt að faglegir og vandaðir sjóðir myndu velja þann vettvang að ræða málin hér á aðalfundi eða fyrst ræða við viðkomandi hluthafa, en svo er greinilega ekki.  

Frá hverjum var órói, jú einum stærsta hluthafa félagsins.  Ég óskaði eftir fundi með fulltrúum þessa hluthafa en fékk engin svör, sem er mjög áhugavert í sjálfu sér.  

Hvernig hafa lífeyrissjóðir hugsað sér að eiga samskipti við aðra hluthafa, t.d. þá fáu einkafjárfesta sem enn þora og vilja vera á þessum markaði.

Hvernig hafa lífeyrissjóðir hugsað sér að eiga samskipti við aðra hluthafa, t.d. þá fáu einkafjárfesta sem enn þora og vilja vera á þessum markaði. Hluthafafundur er einmitt staðurinn til að ræða málin en frekar kjósa þessir tveir fulltrúar opinberra lífeyrissjóða að fara beint í manninn á síðum slúðurmiðils.  

Það er líka annar áhugaverður vinkill á þessu valdabrölti og áhrifafjárfestingum þessara opinberu sjóða.  Við setningu laga um kynjakvóta myndast ákveðin glufa sem er verið að misfara með hér á þessum fundi.  Tvær hæfar konur eru sjálfkjörnar og þurfa því einungis 1 atkvæði hvor.  Því nýtast atkvæði stórra eigenda mjög í valdabaráttu sem þessari.

Það væri fjarstæðukennt að ætla að löggjafinn hafi séð fyrir að stærstu lífeyrissjóðir landsins myndu nýta sér með þessum hætti lagaákvæði sem sett voru til að rétta hlut kvenna í atvinnulífi og samfélagi. 

Eftir að hafa starfað á þessum markaði í tæp 30 ár hef ég aldrei orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og beinni íhlutun stofnanafjárfesta í aðdraganda stjórnarkjörs eins og hér í  Festi að þessu sinni. Það felst í því mikil ábyrgð að fara með fé annarra og gera það vel.  

Félag eins og Festi er mjög fyrirferðamikið á mörgum neytendamörkuðum eins og við þekkjum, t.a.m. með matvöru, raftæki, orku og líklega fljótlega lyf ef Samkeppniseftirlit heimilar þau viðskipti.

Jafnframt rekur og á Festi eitt stærsta fasteignafélag landsins með um 100þ fm að stærð.  Það er því mjög mikilvægt á þessum litla markaði sem við störfum á að huga vel að góðum stjórnarháttum þannig að ekki verði skörun á milli keppinauta.  

Hér á síðustu árum hefur að mínu mati átt sér stað mikilvæg og uppbyggileg þróun á góðum stjórnarháttum sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Kauphöllin hafa unnið að.  Ég treysti því að þeir aðilar sem hafa unnið að þessum málum á síðustu árum vilji standa vörð um þann árangur sem náðst hefur, sem nú á undir högg að sækja að mínu mati.

Það er von mín að félaginu gangi vel í framtíðinni en einkafjárfestar eru a.m.k ekki vel séðir til að hafa áhrif né innlegg til stjórnunar félagsins.

Í ljósi þess sem ég hef rætt hér að undan var það aldrei ásetningur minn að valda óróa hjá félaginu, hvað þá að taka þátt í því að skapa félaginu líkleg vandræði.  Eftir að framboðsfrestur til stjórnar rann út hef ég velt öllum þessum hlutum vel fyrir mér með fjölskyldu minni og vinum og hef ég því ákveðið að draga framboð mitt til stjórnar Festi til baka.

Takk fyrir mig.“