Rjúpusúpan er það sem skiptir öllu máli: Uppskrift að hafrakúlum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

„Jólin eru frekar hefðbundin hjá okkur, mjög sjaldan brugðið út af vananum enda okkur haldið við efnið af börnunum. Nema núna verður þetta með nokkuð öðrum hætti þar sem við verðum í Þýskalandi hjá einu af barnanna,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður og formaður Viðreisnar í samtali við Viljann.

Jólin eru einn yndislegasti tími ársins, með fjölskyldu og bókum, segir Þorgerður Katrín. Allajafna er hún á jólum með sínu fólki í Hafnarfirði og fær fjölskylduna sína úr Reykjavík í heimsókn.

„Venjubundið aðfangadagskvöld hefst á lestri jólaguðspjallsins en eftir það er humarsúpa, rjúpur og meðlæti og síðan heimagerður ís með ferskum ávöxtum. Rjúpusósan er það sem skiptir öllu máli,“ segir hún.

„Með kaffinu og yfir jólagjöfunum eru heimagerðar Sörur frá vinkonu minni (já, ég geri þær ekki sjálf!) og hafrakúlur. Til að réttlæta þær oft nefndar hollustukúlur.“

Uppskriftin að hafrakúlunum:

1 dl haframjöl – uþb
½ dl kókósmjöl
½ dl hakkaðar möndlur
2 msk kakó
vanilludropar
handfylli af döðlum og vel það hitaðar upp í 2 msk af kókosolíu í örbylgju (kannski 45 sek)
Agavesíróp
Öllu hnoðað saman í vél, kúlum (penar um jólin) velt upp úr kókosmjöli. Mjög einfalt. Sér í lagi fljótlegt yfir góðu púrtvíni.