Segir Noreg hafa skellt í lás: Þeir sem koma frá Íslandi þurfa í sóttkví

Linda Wiium er búsett í Noregi.

Noregi hefur nánast verið lokað og öllu skellt í lás í landinu. Íslendingar sem koma til landssins þurfa nú að fara beint í tveggja vikna sóttkví, segir íslenskur lögfræðingur sem búsett er í landinu. Hún segir undarlega ró yfir öllu.

Linda Wiium er lögfræðingur hjá bæjaryfirvöldum í Sarpsborg. Hún segir í samtali við Viljann að allir skólar og leikskólar séu lokaðir. Hún sé látin vinna heiman frá sér og fái ekki að koma í Ráðhúsið lengur. Öllum fundum og eftirliti tengt hennar störfum hafi verið aflýst.

Hún segir landið í allsherjar „Lock Down“, herinn aðstoði á flugvellinum og fólk sé sent til baka með harðri hendi. Norsk yfirvöld hvetji Norðmenn erlendis að drífa sig heim áður en þeir lokast inni annars staðar.

„Norsk yfirvöld biðja fólk um að sleppa öllum ferðum/ferðalögum erlendis sem eru ekki lífsnauðsynleg fram að 14. apríl, eða framyfir páska,“ segir hún ennfremur og bætir við að þar með sé páskaferð hennar með fjölskyldunni farin í vaskinn.

„Ef ég þarf að gera eitthvað, þá fer ég út snemma eða seint til að forðast margmenni. Í búðinni sem ég var í í gærkvöldi var allt hveiti búið, allur sykur búinn, allar kornvörur, engin mjólk, engin egg, allur matur í niðursuðudósum búinn, ekkert brauð til, og farið að ganga á ýmsar aðrar vörur. Í morgun í Rema 1000 var nóg til af öllu, en maður sá samt að það var minna til af ýmsum vörum en venjulega.

Ég var í apótekinu þegar það opnaði í morgun. Það er nú þegar skortur á ákveðnum lyfjum. Var auðsjáanlega farið að ganga á ýmsar vörur, eins og blautservíettur, verkjalyf og C-vítamín,“ segir hún.

Linda segir að almenningur haldi fjarlægð til að forðast smit og það sé undarleg ró yfir öllu.

Og hún bætir við í léttum dúr:

„Það er ennþá til nóg af klósettpappír.“