Séra Ingibergs minnst á þingi

Ingiberg Jónas Hannesson var fæddur í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp 9. mars 1935.

Guðjón Brjánsson, varaforseti Alþingis, minntist látins þingmanns við upphaf þingfundar í dag.

Fara minningarorð hans hér á eftir:

„Þær fregnir bárust í morgun að séra Ingiberg J. Hannesson, fyrrverandi alþingismaður, hefði andast á hjúkrunarheimilinu Sóltúni hér í borg sl. sunnudag, 7. apríl, 84 ára að aldri.

Ingiberg Jónas Hannesson var fæddur í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp 9. mars 1935. Foreldrar hans voru hjónin Hannes Guðjónsson, sjómaður og verkamaður þar, og Þorsteina Guðjónsdóttir, húsfreyja og verkakona.

Ingiberg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1955 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1960. Hann var við námslok blaðamaður og framkvæmdastjóri blaðsins Frjálsrar þjóðar í stuttan tíma, en var síðan vígður prestur í Staðarhólsþingum sumarið 1960 og sat á Hvoli í Saurbæ. Hann varð síðar prófastur í Dalaprófastsdæmi 1969 og sameinuðu prófastsdæmi Snæfellsness og Dala frá 1976 uns hann lét af störfum, sjötugur að aldri, eftir 45 ára prestsþjónustu.

Ingiberg J. Hannesson varð þegar er hann vígðist prestur virkur í félagsmálum í héraðinu, í skólamálum, barnaverndarmálum, bindindismálum og atvinnumálum og sat m.a. í fræðsluráði Vesturlands 1974–1978.

Ingiberg varð varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Vesturlandskjördæmi við kosningarnar 1974, sat þá þrívegis á þingi sem slíkur en tók fast sæti á Alþingi sumarið 1977 við andlát Jóns Árnasonar alþingismanns. Hann sat því á fjórum löggjafarþingum. Hann átti sæti í efri deild og sat í samgöngu-, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndum deildarinnar.

Ingiberg J. Hannesson þótti prúður maður í allri framgöngu, hógvær og lítillátur. Hann var vinsæll prestur í sinni heimabyggð, góður og áheyrilegur ræðumaður og ritfær vel. Til hans var leitað um mörg framfaramál í sveitinni og nágrannabyggðum og þeim fylgdi hann fast eftir af trúmennsku.

Nokkuð er um liðið síðan þingsetu hans lauk, og hún var stutt. Eigi að síður eiga þeir sem muna séra Ingiberg góðar minningar um hann í sölum Alþingis.

Ég bið þingheim að minnast séra Ingibergs J. Hannessonar með því að rísa úr sætum.“