Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ, varaformaður bæjarráðs og formaður skólanefndar, býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðifélaganna i Garðabæ sem haldið verður 5. mars nk. Sjá heimasíðu https://sigridurhuldajons.is/
Þetta kemur fram í tilkynningu frá frambjóðandanum. Þar segir ennfremur: „Árið 2014 tók Sigríður Hulda sæti sem bæjarfulltrúi í Garðabæ. Þá hafði hún verið formaður skólanefndar Tónlistarskólans í Garðabæ kjörtímabilið áður og formaður Sjálfstæðisfélags Garðabæjar um árabil. Síðastliðin átta ár hefur Sigríður Hulda verið bæjarfulltrúi, varaformaður bæjaráðs, formaður skólanefndar, varamaður í stjórn Stætó bs. og síðar Sorpu bs. Veturinn 2015-2016 var hún einnig forseti bæjarstjórnar.
Á þessum árum hefur Sigríður Hulda komið að fjölda verkefna í bæjarmálunum, bæði með formlegum og óformlegum hætti s.s. að stofna þróunarsjóð við leik- og grunnskóla, stýra nefnd um val á aðkomutákni bæjarins, starfað í nefndum og vinnuhópum um menningarhús í bænum, heilsueflandi og barnvænt bæjarfélag, endurskoðun ýmissa stefna sem snerta ungmenni, skólamál, lýðræðismál og forvarnir, lagt fram tillögur í bæjarstjórn, komið á verkefninu Betri Garðabær ásamt öðrum bæjarfulltrúa og fylgt eftir málum á ýmsum sviðum.“
,,Ég vil öflugra mannlíf í Garðabæ, það tengist inn í allar nálganir og málaflokka; lýðræðið, framsækni í skipulags- og umhverfismálum s.s. aðlaðandi miðbæ, tengingar við náttúru, útivistar- og menningarsvæði, framsækni í skólastarfi, fjölbreytt rekstrarform í þjónustu, hvernig nýtt fjölnota íþróttahúsi getur skapað ný tækifæri fyrir allan aldur og mannlífið. Allt þetta byggir á ráðvendni í fjármálum” segir Sigríður Hulda. Á heimasíðunni sigridurhuldajons.is má sjá nánar um áherslur Sigríðar Huldu.