Sigríður Ingibjörg ráðin hagfræðingur BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fv. þingmaður Samfylkingarinnar, hefur verið ráðin í stöðu hagfræðings BSRB og tók hún til starfa í dag. Sigríður hefur víðtæka þekkingu af málefnum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnsýslunnar og mikla reynslu af greiningarvinnu og stefnumótun.

„Það er afar ánægjulegt að bætast í hóp starfsmanna BSRB og vinna að hagsmunum um 22 þúsund félagsmanna bandalagsins,“ segir Sigríður. „Þetta eru spennandi tímar, kjaraviðræður í fullum gangi og mikil vinna fram undan hjá bandalaginu. Ég hlakka til að takast á við verkefnin og kynnast öllu því góða fólki sem starfar hjá aðildarfélögum BSRB,“ bætir hún við í frétt á vef samtakanna.

Sigríður starfaði áður á hagdeild ASÍ, sem sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu og sem sérfræðingur á þjóðhagsreikningasviði Hagstofunnar og hefur því víðtæka þekkingu og reynslu af greiningarvinnu á sviði kjara-, velferðar-, skatta- og ríkisfjármála.

Þá sat hún á Alþingi í sjö ár og var formaður fjárlaganefndar en lengst af formaður velferðarnefndar þingsins. Sigríður hefur nýlokið meistaranámi í stjórnun og opinberri stefnumótun við Goldman School of Public Policy við Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum. Fyrir var hún með meistaragráðu í viðskipta- og hagfræði frá Uppsala-háskóla í Svíþjóð.

„Við erum afar heppin að hafa fengið svo öfluga konu til liðs við okkur. Hennar víðtæka reynsla mun nýtast okkur vel í yfirstandandi kjaraviðræðum og í öðrum stórum verkefnum sem eru fram undan,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Eins og sjá má í fréttinni hér að neðan, eru mörg dæmi um að stjórnmálamenn af vinstri vængnum ráði sig til verkalýðshreyfingarinnar þegar afskiptum þeirra af stjórnmálum lýkur.