Sigþrúður fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokks í Kraganum

Sigþrúður Ármann lögfræðingur og athafnakona.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, tilkynnti á þingfundi í gær, að borist hefði bréf frá 1. varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, Arnari Þór Jónssyni, dagsett 25. janúar sl., „þess efnis að hann segi af sér varaþingmennsku fyrir flokkinn.“

Arnar Þór hefur sem kunnugt er, gefið kost á sér til embættis forseta Íslands, en forsetakosningar verða í byrjun sumars.

Samkvæmt þessu færast varamenn flokksins neðar á listanum upp um eitt sæti og 1. varaþingmaður flokksins í kjördæminu verður Sigþrúður Ármann, lögfræðingur og athafnakona.

Suðvesturkjördæmi nær yfir sveitarfélögin umhverfis Reykjavík. Í kjördæminu eru 13 alþingismenn, þar af 2 uppbótaþingmenn. Til suðvesturkjördæmis teljast eftirtalin sveitarfélög: Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 17.727 atkvæði í alþingiskosningunum 2021 og er stærsti stjórnmálaflokkurinn í kjördæminu með 30,2% atkvæða og fjóra þingmenn. Þeir eru Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, Jón Gunnarsson fv. ráðherra, Bryndís Haraldsdóttir forseti Norðurlandaráðs og Óli Björn Kárason, fv. þingflokksformaður.

Auglýsing frá Sjálfstæðisflokknum í Kraganum (Suðvesturkjördæmi) fyrir síðustu alþingiskosningar.