„Sjokk að flytja til Íslands“ –Drottning þríþrautarinnar gengur með sitt þriðja barn

Hjördís Ýr Ólafsdóttir, hönnuður og afrekskona í þríþraut, er 37 ára tveggja barna móðir þeirra Ninju ( 10 ) og Nóa ( 6 ). Hún er uppalin í Hafnarfirði og býr þar enn. Hjördís er iðnhönnuður að mennt og lærði í Mílanó á Ítalíu. Fór hún síðar í mastersnám í grafískri hönnun í Ástralíu þar sem hún bjó í tæp 7 ár. ,,Í dag er ég heppin að vinna á þeim góða stað sem Bláa Lónið er, það eru mikil forréttindi að vinna í þeirri paradís og ég hef þar að auki fengið svigrúm til að sinna keppnum í þríþraut,’’ segir hún.

Frá því Hjördís var barn hefur hún ávallt verið mjög virk, hvort sem það var í íþróttum eða öðru. Hún hefur klárað mörg hálf maraþon og eitt heilt maraþon, gerði hún það í Ástralíu nokkrum mánuðum eftir að sonur hennar fæddist. Hún hljóp mjög mikið á tímabili og sá að hún yrði að auka fjölbreytnina í æfingum svo hún byrjaði að synda og hjóla mikið.

,,Ég bjó í mekka þríþrautarinnar í Ástralíu, aðstæður voru frábærar og það varð í raun ekki aftur snúið eftir að ég kynntist þeirri íþrótt. Það var töluvert sjokk að flytja til íslands og venjast því að hjóla í kuldanum eða synda í ísköldum vötnum.’’

Eftir að hafa keppt eitt sumar á Íslandi, gengið mjög vel og hafa verið valin þríþrautarkona ársins ákvað Hjördís að einblína á keppnir erlendis.

,,Mín uppáhalds vegalengd er Ironman 70.3 eða hálfur járnkarl sem er 1.9km sund, 90 km hjól og 21,1 km hlaup. Ég náði besta tíma íslenskrar konu í vegalengdinni árið 2017 eða tímanum 4 klst og 56 mínútur. Ég hef tekið þátt í mörgum löndum en í síðustu tveim keppnum sem ég kláraði, á Írlandi og í Svíþjóð var ég í öðru sæti og náði að komast inn á heimsmeistaramótið í Ironman 70.3 í bæði skiptin. Því miður mun ég ekki ná að mæta á heimsmeistaramótið í ár þar sem ég er ólétt og á að eiga rúmlega mánuði eftir keppni.“

Spennt að geta keppt aftur

Hún lætur þó barneignir ekki stöðva sig. Hún er spennt fyrir því að geta keppt aftur og er sátt á meðan hún getur hreyft sig. Er hún komin 25 vikur á leið og segir að ekkert jafnist á við það að geta hreyft sig, verið úti í náttúrunni og geta komið sjálfri sér stöðugt á óvart.

Hún reynir að vera virk á instagram undir @hjordisyr til að gefa vinum og æfingafélögum innsýn inn í æfingar og keppnir þegar tímabilið er í gangi.

Hvað er planið hjá Hjördísi í sumar?

,,Ég er með lítið planað í sumar en því miður þurfti ég að hætta við heimsmeistaramótið í Nice í september eins og greint var frá. Ég ætla að ferðast eitthvað innanlands og kannski fara erlendis en það er óplanað ennþá. Ég ætla að vera með krökkunum mínum og ditta að garðinum’’!


Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað planið hjá þeim sé í sumar.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.