Skiptir miklu máli að við Íslendingar tölum okkur ekki niður

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, segir að Ísland gangi nú gegnum fimmtu bylgju alþjóðlegrar fréttaumfjöllunar á stuttum tíma og í því felst gríðarleg tækifæri til framtíðar sem mikilvægt sé að nýta vel.

Hann sagði í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu nú undir hádegi, að frábær árangur íslenskra sóttvarnayfirvalda hér á landi veki aðdáun um allan heim á sama tíma og margar stórþjóðir þurfi að horfast í augu við mjög erfiða spegilmynd.

Hér á landi höfum við óspillta náttúru og víðerni, hreint land og vatn, litla mengun borið saman við aðra og fámenni sem geri landið eftirsóknarvert fyrir marga sem vilji forðast veirusmit á næstu mánuðum og misserum og setji alls ekki fyrir sig að þurfa að hefja dvölina hér á landi í stuttri sóttkví.

„Ef okkur tekst að nálgast þetta með nýjum hætti, getum við boðið veröldinni upp á nýjar aðstæður, tækifæri og upplifun á næstu mánuðum, misserum og árum sem önnur lönd geta ekki. Við erum blessunarlega vel sett borið saman við aðra,“ sagði hann.

Ólafur Ragnar sagði mikilvægt að við Íslendingar tölum okkur ekki niður, heldur veltum upp tækifærum í erfiðri stöðu. Benti hann á að Netflix telji Ísland kjörland fyrir kvikmyndagerð og að fjallað væri um það í Bretlandi að hægt sé að ljúka keppni í úrvalsdeildinni hér á landi.

„Hver vill vera mikið á næstunni í mannmergð stórborga á borð við London, París eða New York?“ spurði hann ennfremur.

Ólafur Ragnar sagðist í þættinum hafa verið nýkominn frá Indlandi og Berlín þegar heimurinn lokaðist vegna Covid-19 og það væri kærkomin hvíld og tilbreyting frá ferðalögum að vera nú fastur hér á landi og eiga náðuga daga í Mosfellsbænum, þar sem þau Dorrit Moussaieff búa.

Hún greindist einmitt með kórónuveiruna eftir hingaðkomu frá Lundúnum og var töluvert veik í nokkra daga. Segir Ólafur Ragnar það hafa verið magnaða upplifun að vera í einangrun með henni, hún hafi lokað sig af í herbergi og hann fært henni mat og annað og sett fyrir framan dyrnar. Fjölskyldan hafi svo séð um að versla inn nauðþurftir og sett fyrir framan útidyrnar.

Dorrit sú nú öll hressari, sé farin að ganga aftur á Esjuna og hann hafi alltaf greinst neikvæður fyrir veirunni þrátt fyrir að nokkur sýni hafi verið tekin. Þau hjón hafi nýlega farið í skimun hjá Kára Stefánssyni í Íslenskri erfiðagreiningu þar sem mótefni fyrir veirunni var mælt og þau bíði nú niðurstöðu úr þeirri athugun.

Viðtalið við Ólaf Ragnar má sjá hér.