Birna Sif Bjarnadóttir, skólastjóri Ölduselsskóla, er látin aðeins 38 ára að aldri. Hún varð bráðkvödd að heimili sínu síðastliðinn fimmtudag.
Mikil sorg er í Seljahverfinu í Breiðholti, enda Birna Sif vinsæl með afbrigðum, jafnt hjá nemendum sem starfsfólki skólans.
„Það var mikið áfall að heyra af andláti Birnu Sifjar skólastjóra Ölduselsskóla, langt, langt um aldur fram,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fésbókinni. „Birna hafði vakið athygli fyrir að takast á við krefjandi verkefni og æ stærra hlutverk í skólamálum borgarinnar og skaraði fram úr fyrir alúð sína og metnað. Dauði hennar er öllum harmafregn, samstarfsfólki og nemendum, en hugurinn er ekki síst hjá eiginmanni hennar og börnum, fjölskyldu og vinum. Ég votta þeim öllum mína dýpstu og innilegustu samúð. Blessuð sé minning Birnu Sifjar Bjarnadóttur,“ bætir hann við.
Birna Sif var fædd í Reykjavík 2. september 1981, dóttir Bjarna Þ. Bjarnasonar og Sigríðar Ólafsdóttur. Í andlátsfrétt, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, kemur fram að hún hafi lokið M.Ed.-gráðu frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana. Einnig sótti hún fjölmörg námskeið og ráðstefnur, innan lands sem utan, og var virk í ýmsu félagsstarfi sem tengdist starfi hennar.
Í um tíu ár starfaði Birna Sif sem grunnskólakennari við Ölduselsskóla. Þaðan fór hún í Flataskóla í Garðabæ þar sem hún starfaði sem deildarstjóri einn vetur. Eftir það var hún vetrarlangt aðstoðarskólastjóri í Breiðholtsskóla. Loks tók hún svo við starfi skólastjóra Ölduselsskóla á síðasta ári.
Eftirlifandi eiginmaður Birnu er Bjarki Þórarinsson byggingartæknifræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti. Þau eignuðust þrjár dætur: Ronju Rut sem er fædd 2008, Birgittu Sigríði sem er fædd 2011 og yngst er Birta Dís fædd 2015.