Við lestur á Dúnstúlkunni í þokunni eftir Bjarna M. Bjarnason fer maður í ferðalag um svo framandi en um leið kunnuglegt Ísland, að maður verður dálítið hissa þegar textinn minnir mann rækilega á samtímann í Grindavík.
Höfundurinn styðst við reynslu fólks sem sumt flúði land vestur um haf, eftir Dyngjufjallagosið 1875. Á blaðsíðu 280 í kafla 55, segir uppflosnaður bóndi frá, Magnús Brettingsson að nafni, en börnin hans eru flúin vestur um haf þó að hann sjálfur og konan treysti sér ekki til að fara úr landi á miðjum aldri:
„Magnús sagði dúnstúlkunni af sínum högum hin síðari ár og þeirra hjóna. Dúnstúlkan forvitnaðist um það þegar jörðin klofnaði skyndilega undan þeim hérna um árið. Hann sagði að í marga mánuði hefðu jarðskjálftarnir orðið æ tíðari, þar til undir jól að allir fylltust hryllingi. Allan janúar og fram í febrúar leið vart mínúta án þess að jörð skylfi og þau héldu að baðstofan mundi hrynja.
Um miðjan febrúar gaus svo eldur upp úr gjánni, sem var geigvænlegt fyrir þau sem bjuggu svo nærri, en jörðin róaðist þó eitthvað. Ólína hefði hlaupið út með hvítan disk, haldið á honum úti um stund og komið inn með gler- og málmnálar, misjafnlega langar. Sumar voru þumlungur og jafnvel lengri, marglitar og ekki grófari en fíngerðustu saumnálar. Birtan af jarðeldinum hefði verið svo mikil á snjó í hæðum og fjöllum suður af bænum að lesa mátti bók í baðstofunni um hánótt. Hversu mikið sem hríðaði hefði snjór aldrei tollað á hrauninu.
Allan janúar og fram í febrúar leið vart mínúta án þess að jörð skylfi og þau héldu að baðstofan mundi hrynja. Um miðjan febrúar gaus svo eldur upp úr gjánni, sem var geigvænlegt fyrir þau sem bjuggu svo nærri, en jörðin róaðist þó eitthvað.
„Margar jarðir fóru í eyði fyrst um sinn, bændur urðu að troða sér niður í nálægum sveitum í nokkur ár. Núna, eftir að sprottið er upp úr öskulaginu, eru flestir snúnir aftur. Á jörðinni okkar sést hins vegar ekki stingandi strá og verður ekki úr þessu. Margra ára túnbæturnar fóru fyrir lítið, má segja.“
Magnús horfði vonleysislega á snjóhvítan gluggann um sinn og þau þögðu öll. Þegar hann stóð upp til að kveðja, áttaði Jói sig á að hann hefði sennilega verið hljóður í vel á annan tíma. Dúnstúlkan greip um hönd Magnúsar og sagði að ekkert lægi á. Frekar hefði bætt í en hitt og hún vildi ekki vera þekkt fyrir að senda gesti út í mannskaðaveður. Vissara væri að hann gisti. Magnús kvað það vel boðið, kannski gerði hann það síðar og bjó sig til ferðar. Þegar hann hafði lokað útidyrunum vék dúnstúlkan sér að Jóa, sló hann fast utanundir og skipaði honum að hundskast á lappir. Jói strauk vangann undrandi, skjögraði á fætur og fann hvernig hún hratt honum að dyrunum. Hvæsti á hann:
„Þú lætur hann ekki fara svona!”
Að Jóa hvarflaði að hún vildi að hann elti hann uppi og sneri hann niður.“
Svo mörg voru þau orð. Atburðirnir í Grindavík minna okkur rækilega á hve erfitt hefur oftast verið að búa á Íslandi.