Stórmerkileg tíðindi er að finna í nýrri skoðanakönnun Maskínu sem birtist á Stöð 2 í kvöld, með því að Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri hefur tekið forystu og mælist efst með 26,2% fylgi. Næst kemur Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra með 25,4% og þriðji er Baldur Þórhallsson með 21,2%. Jón Gnarr mælist með 15,2%.
Svo jafnar eru tölurnar í upphafi kosningabaráttunnar, að ekki er marktækur munur á þeim Höllu Hrund, Katrínu og Baldri, en stórstökk orkumálastjórans vekur þó mesta athygli, enda mældist fylgi hennar 10,5% í síðustu Maskínukönnun þann 18. apríl sl.
Nokkrar kannanir hafa birst síðustu daga sem sýna ólíkar niðurstöður. Í Þjóðarpúlsi Gallup var Katrín efst og hjá Prósenti var Baldur efstur. Lítill munur hefur þó verið á efstu frambjóðendum í öllum þessum könnunum.
Að fara úr 10,5% í 26,2% á aðeins átta dögum hlýtur að vekja athygli. Á grafinu hér að neðan, sem er úr könnun Maskínu, sést að hástökkvarinn tekur fylgi frá öllum meðframbjóðendum sínum milli kannana.
Það er því útlit fyrir spennandi kosningabaráttu.