Stærsta kvenútvarpsstjarna þjóðarinnar

„Valdís verður í mínum huga alltaf stærsta kvenútvarpsstjarna þjóðarinnar. Í útvarpinu var hún dugleg að tala um það sem henni líkaði og það var alltaf á hreinu ef henni líkaði ekki eitthvað,“ sagði útvarpsmaðurinn og plötusnúðurinn Sigurður Hlöðversson (Siggi Hlö) í minningargrein um Valdísi Regínu Gunnarsdóttur útvarpskonu sem lést fyrir tæpum fimm árum. Hún hefði orðið sextug í dag, hefði hún lifað.

Valdís Regína Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 10. nóvember 1958. Hún lést á líknardeild Landspítalans 8. desember 2013.

Foreldrar Valdísar voru Gunnar Magnús Jónsson, f. á Vopnafirði 5. júlí 1933, d. 19. september 1989, og Margrét Einarsdóttir, f. í Reykjavík 13. ágúst 1934, d. 31. maí 2006.

Valdís eignaðist tvö börn, Hrafn Valdísarson, f. 1994, og Gretu Lind Kristjánsdóttur, f. 1973. Hún ólst upp hjá ömmu sinni og afa í föðurætt.

Valdís ólst upp í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskóla. Hún fluttist ung að heiman og hóf að vinna fyrir sér m.a. sem bókari hjá Manser hf. Lengst af starfaði Valdís við útvarp, fyrst á Rás 2, en síðar m.a. á Bylgjunni, FM 95,7 og útvarpsstöðinni Matthildi. Árið 1985 réð hún sig til starfa hjá Flugleiðum hf. sem flugfreyja. Því sinnti hún með hléum í nokkur ár samhliða þáttagerð í útvarpi. Hún var um tíma dagskrárstjóri Bylgjunnar. Valdís stofnaði og rak fyrirtækið Kroppar og kiðlingar ehf., sem sérhæfði sig í útgáfu tækifæriskorta og almanaka. Árið 2010 lauk hún diplómanámi í forystu og stjórnun fyrir fólk í flugi hjá Háskólanum í Reykjavík.

Valdís var velunnari fólks. Hún lét alltaf að sér kveða til hjálpar þeim sem minna máttu sín, sérstaklega á jólum. Hún hóf sig aftur til flugs árið 2007 og starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair til dauðadags.