Fyrirtækið Gangverk hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2023. Atli Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Við sama tilefni var afhent heiðursviðurkenning, sem árlega er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu og verkum hafa borið hróður Íslands víða um heim. Hanna Birna Kristjánsdóttir varð fyrir valinu í ár og var heiðruð fyrir störf sín á alþjóðavettvangi.
Hanna Birna lagði stund á stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og sótti að því búnu háskólann í Edinborg þar sem hún lauk meistaranámi í Evrópskum og alþjóðlegum stjórnmálum árið 1993.
Að námi loknu tók hún fljótt til starfa á sviði stjórnmálanna og sinnti ýmsum störfum á þeim vettvangi. Hún var framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna og síðan varaframkvæmdastjóri um árabil. Þá starfaði hún í borgarstjórn Reykjavíkur í 15 ár. Hún var m.a. forseti borgarstjórnar, kjörin borgarstjóri Reykjavíkur árið 2008 þar sem hún sat í embætti í tvö ár. Þá starfaði hún einnig sem innanríkisráðherra á árunum 2013-2014 og sem þingmaður til þriggja ára.
Árið 2016 ákvað Hanna Birna að venda kvæði sínu í kross og sagði skilið við stjórnmálin.
Hún tók þá að starfa við sitt helsta áhugamál; jafnrétti kynjanna.
Hanna Birna lætur sig réttindi kvenna miklu varða og er stofnandi og stjórnarformaður Heimsþings kvenleiðtoga og sérlegur ráðgjafi á skrifstofu framkvæmdastjóra UN Women í New York. Þá hefur hún einnig verið í forsvari fyrir alþjóðlega ráðstefnu kvenleiðtoga sem haldin hefur verið í Hörpu.
Hún hefur á síðustu sjö árum látið markvisst til sín taka í þessum málaflokki og störf hennar hlotið verðskuldaða viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Árið 2016 var hún útnefnd sem ein af 100 áhrifamestu einstaklingum heims í jafnréttismálum af Apolitical. Þá hlaut hún árið 2021 norrænu Blaze verðlaunin fyrir áherslu á jafnrétti með stofnun Reykjavik Global Forum.
Tilgangurinn með veitingu Útflutningverðlaunanna er að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum mörkuðum og fleiru.
Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 35. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Controlant, Icelandair, Íslensk erfðagreining, Ferðaþjónusta bænda og Marel og á síðasta ári hlaut EFLA verðlaunin.