„Stígðu ófeimin stúlka upp“

Blómsveigur verður lagður að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallakirkjugarði á kvenréttindadegi íslenskra kvenna á morgun, miðvikudaginn 19. júní kl. 11:00.

Forseti borgarstjórnar leggur blómsveig að leiðinu og flytur stutt ávarp.

Salóme Katrín Magnúsdóttir syngur nokkur lög.

Öllum er velkomið að koma og eiga hátíðlega stund í minningu Bríetar og réttindabaráttu kvenna.

Bríet Bjarnhéðinsdóttur átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og var fyrsti formaður félagsins frá stofnun allt til ársins 1928. Markmið félagsins var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.

Konur í Reykjavík buðu fram Kvennalista fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 1908 og var það fyrsta sér framboð kvenna á Íslandi.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir heldur ræðu á Austurvelli 7. júlí 1915 til þess að fagna kosningarétti kvenna. / Kvennasögusafn Íslands.

Þann 19. júní árið 1915 fengu giftar konur kosningarétt og kjörgengi í Reykjavík og Hafnarfirði og öðluðust þar með sjálfstæði frá eiginmönnum sínum til pólitískrar þátttöku, en ekkjur og ógiftar konur höfðu þá haft kosningarétt í um aldarfjórðung. Tveimur árum síðar fengu konur í öðrum sveitarfélögum sömu réttindi.

Bríet lést í Reykjavík árið 1940.

Bríet ásamt Laufeyju dóttur sinni.

„Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði, yfir geiminn yfir græði, allan heiminn skoða í næði.“

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sem fæddist á þessum degi árið 1856, orti að öllum líkindum þessa vísu til dóttur sinnar Laufeyjar. Þessi orð standa nú á minnisvarða um Bríeti.

Minnisvarðinn sem var reistur í nóvember 2007 er laut með hringlaga granítplötu í miðju, „forum“ eða torg að rómverskri fyrirmynd, að sögn listakonunnar Ólafar Nordal. Torgið verndar grösugar hæðir, „kvenlegir barmar“, eins og Ólöf kallar þær og hægt er að tylla sér á bekki við. Í því miðju er blómamunstur í gráum og rauðum litum, eftirgerð munsturs sem Ólöf sá á veggklæði sem Bríet gaf dóttur sinni Laufeyju Valdimarsdóttur. Barnabarn Bríetar og vinkona Ólafar, Laufey Sigurðardóttir, á nú þetta klæði. Utan um munstrið hringast ofangreind vísa eftir Bríeti, einnig fengin af klæðinu. Skilaboð frá baráttukonu til dóttur sinnar og hvatningarorð til allra kvenna um leið.

Bríet var jarðsett í Hólavallakirkjugarði.

Ríkisstjórnin fól Kvennasögusafni Íslands árið 2004 að sjá til þess að Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og íslenskri kvennabaráttu yrði reistur minnisvarði. Að ákvörðun Reykjavíkurborgar sem studdi verkefnið dyggilega er á Þingholtsstræti minningarreitur um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og íslenska kvennabaráttu. Bríetarbrekka er safneign Listasafns Reykjavíkur.

Heimildir: Reykjavíkurborg og Kvennasögusafn Íslands.