Stórviðburður: Heimsferð Maós, ný sýning á verkum Errós í Hafnarhúsi

Heimsferð Maós er heiti nýrrar sýningar á verkum Errós sem verður opnuð á miðvikudaginn 1. maí, á verkalýðsdaginn í  Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Sýningin verður opnuð klukkan 17.

Erró verður viðstaddur opnunina og mun við sama tækifæri afhenda styrk úr listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, opnar sýninguna. Sýningarstjóri er Danielle Kvaran.

Erró var einn fyrsti vestræni listamaðurinn til að nýta sér goðsögnina um Maó Zedong og myndir af honum. Hann hóf að blanda myndum af kínverska kommúnistaleiðtoganum og hersveitum hans í verk sín á árunum 1967-68. Árið 1972 byrjaði hann að skapa myndaröðina Fjórar borgir sem var undanfari Kínversku málverkanna. Þessi olíumálverk, sem flest eru máluð milli 1974 og 1980 með hjálp atvinnumanna sem máluðu taílensk kvikmyndaveggspjöld, segja sögu Maós formanns sem drottnara heimsins, þótt í raun og veru hafi Maó aðeins tvisvar sinnum yfirgefið Kína, í bæði skiptin til að fara á aðalfund Kommúnistaflokksins í Moskvu. Í meðförum Errós spannar Gangan langa, sem Maó og kommúnískar hersveitir hans tókust á hendur árin 1934-35 (tíu þúsund kílómetrar á 368 dögum) jörðina alla, sérstaklega Evrópu og Bandaríkin, tákn kapítalisma og heimsvaldastefnu.

Hvert Kínversku málverkanna, eins og flest önnur málverk eftir Erró frá árinu 1964, er unnið með hliðsjón af bráðabirgða klippimynd. Erró blandar kínverskum áróðursmyndum við ferðamannamyndir úr póstkortum og ferðabæklingum og sendir Maó og fylgismenn hans í sigurgöngu um helstu borgir og táknræna staði Vesturlanda. Sviðsett nærvera Maós á þessum stöðum er kaldhæðnisleg tilvísun í þá öldu maóisma sem reið yfir vestrænt listafólk, menntafólk og stjórnmálamenn í kjölfar stúdentaóeirðanna í París í maí 1968. Myndaröðin gerir á hárfínan hátt áþreifanlega bæði hina óraunsæju framtíðardrauma og óttann við að kínverska menningarbyltingin breiddist út um allan heim á þessum tíma.

Kínversku málverkin gerðu Erró heimsfrægan. Þau hafa verið sýnd í fjölmörgum borgum síðan árið 1975, þ. á m. Lucerne, München, Aachen, Rotterdam, París, New York og Feneyjum, með skopstælingar á Litla rauða kveri Maós sem sýningarskrár. Á sýningunni í Hafnarhúsi eru klippimyndir, málverk, steinprent, stafrænar myndir og veggspjöld úr safneign Listasafns Reykjavíkur, auk verka sem fengin voru að láni hjá Listasafni Íslands og úr einkaeigu.

Kínversku málverkin gerðu Erró heimsfrægan.

Styrkur úr listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur er veittur framúrskarandi listakonu ár hvert og er honum ætlað að efla og styrkja listsköpun kvenna. Erró stofnaði Guðmunduverðlaunin til minningar um móðursystur sína, Guðmundu S. Kristinsdóttur frá Miðengi. Viðurkenning úr Listasjóði Guðmundu er nú ein hæsta viðurkenning sem veitt er á sviði myndlistar á Íslandi. Þetta er í 20. sinn sem styrkurinn er veittur.

Þær listakonur sem áður hafa hlotið styrk úr sjóðnum eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Dodda Maggý, Elín Hansdóttir, Finna Birna Steinsson, Gabríela Friðriksdóttir, Guðný Rós Ingimarsdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildigunnur Birgisdóttir, Hulda Stefánsdóttir, Katrín Sigurðardóttir, Margrét H. Blöndal, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Sara Björnsdóttir, Sara Riel, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Þóra Þórisdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.

Stjórn sjóðsins skipa safnstjórar Listasafns Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir, Listasafns Íslands, Harpa Þórsdóttir og Listasafnsins á Akureyri, Hlynur Hallsson.