Stuðningssíða opnuð og söfnun meðmæla hafin fyrir Guðna Th. 2020

Hafin er söfnun meðmæla vegna forsetaframboðs Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands, en hann lýsti yfir framboði til endurkjörs í áramótaávarpi sínu.

Guðni tilkynnir þetta í færslu á nýrri stuðningssíðu á fésbók vegna framboðsins sem ber heitið Guðni Th 2020 og segir:

„Kæru vinir! Ég vona að ykkur líði vel. Nú eru liðin um fjögur ár frá því að ég bauð mig fyrst fram til forseta Íslands. Vordagarnir 2016 líða okkur Elizu seint úr minni. Einstakt var að finna stuðning og samstöðu þeirra þúsunda sem studdu framboðið á svo marga vegu. Allan þann hlýhug munum við ætíð meta mikils.

Í kosningastarfinu einsettum við okkur öll að sýna heilindi og háttvísi, vera bjartsýn og eljusöm. Það er óbreytt. Senn er kjörtímabilið á enda og sú sjálfsagða skylda fram undan að safna meðmælum fyrir framboð mitt á nýjan leik. Sú söfnun hlýtur hins vegar að verða með öðrum hætti en síðast. Því miður gefst ekki sama færi nú og þá að hitta fólk sem víðast og oftast. Í staðinn reiðum við okkur á samfélagsmiðla og rafrænar undirskriftir.

Þessu valda nauðsynlegar varnir gegn veirunni skæðu. Þótt vel hafi gengið hingað til er baráttu okkar gegn þeim vágesti ekki lokið. En það mun birta til! Það býr kraftur í þessari þjóð. Stefnum að því saman að vinna bug á farsóttinni. Og stefnum svo að því saman að skapahér enn betra samfélag en áður. Með það í huga ákvað ég að bjóða mig fram til endurkjörs. Með það í huga vil ég þjóna landi og þjóð.“