Sunna Rós Víðisdóttir og Inga Dóra Guðmundsdóttir hafa hafið störf fyrir þingflokk Pírata. Með ráðningu þeirra eru starfsmenn þingflokksins orðnir fjórir talsins.
Inga Dóra Guðmundsdóttir er með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og meistaragráðu í alþjóðasamskiptum. Hún hefur auk þess lokið bakkalárprófi í stjórnmálafræði. Inga Dóra hefur starfað hjá Háskóla Íslands við markaðsmál og starfaði áður hjá Greenqloud við stafræna markaðssetningu.
Sunna Rós Víðisdóttir lauk grunnámi í þjóða- og Evrópurétti frá háskólanum í Groningen í Hollandi og er að útskrifast með M.L.–próf frá Háskólanum í Reykjavík. Sunna Rós er fyrrum formaður framkvæmdaráðs Pírata og hefur setið í úrskurðarnefnd hreyfingarinnar undanfarið, en lætur nú af þeirri stöðu í kjölfar ráðningarinnar.
Sunna Rós hefur einbeitt sér að rannsóknum á sviði persónuupplýsingaréttar og friðhelgi einkalífs.