Svandís snýr aftur úr veikindaleyfi

Þau ánægjulegu tíðindi spyrjast af Alþingi í dag, að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er snúin aftur úr veikindaleyfi og víkur þá af þingi varaþingmaðurinn Brynhildur Björnsdóttir, sem leyst hefur hana af hólmi undanfarið. Þetta er raunar enn aðeins tæknileg breyting, því Alþingi er farið í leyfi framyfir páska, en þetta rímar við þau tíðindi sem Viljinn hefur sagt frá, að starfsfólk matvælaráðuneytisins hafi fengið upplýsingar um að Svandís myndi snúa aftur til starfa um eða eftir páskana.

Hinn 22. janúar sl. var loft lævi blandið á þingi og nýbúið að leggja fram vantraust á ráðherrann vegna hvalveiðimálsins, þegar Svandís birti óvænt færslu á samfélagsmiðlum, þar sem sagði:

„Frá og með deginum í dag verð ég í veikindaleyfi að læknisráði. Í morgun fékk ég staðfesta greiningu á krabbameini í brjósti og mun gangast undir aðgerð og viðeigandi meðferð á næstu vikum. Ég geng upprétt til móts við þetta stóra verkefni, æðrulaus og bjartsýn. Allir mínir kraftar munu fara í það með fólkið mitt mér við hlið.“

Vantrausttillagan var samstundis afturkölluð, en Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og flutningsmaður hennar, boðaði að hún yrði aftur lögð fram þegar ráðherrann væri snúinn aftur til starfa og gæti tekið til varna.

Gera má ráð fyrir að Svandís komi aftur til starfa í vikunni eftir páska, bæði í ráðuneyti og á þingi.