Tákn Steinunnar á þaki Arnarhvols fyrir hálfa milljón á mánuði næsta árið

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrir helgi að veita 6 milljónum kr. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til listakonunnar Steinunnar Þórarinsdóttur til að innsetning á listaverkinu „Tákn“, sem stendur á þakbrún Arnarhvols, húsnæðis fjármála- og efnahagsráðuneytisins, geti verið upp í eitt ár til viðbótar eða til októbermánaðar 2020.

Þetta þýðir í reynd að ríkisstjórnin mun leigja umrædd verk af listakonunni á 500 þús kr á mánuði til loka samningstímans, en Steinunn er einn þekktasti listamaður þjóðarinnar og nýtur vinsælda og virðingar um allan heim.

Listaverkið er af ellefu mannverum í líkamsstærð og hefur hlotið verðskuldaða athygli frá því verkið var sett upp í maí sl. Innsetningin tengist því að á árinu 2019 varpar Listasafn Reykjavíkur ljósi á list í almenningsrými.

Steinunn Þórarinsdóttir myndlistarkona.

Steinunn Þórarinsdóttir hefur verið starfandi myndlistarmaður í um 40 ár og hefur unnið að fígúratífum skúlptúrum frá byrjun síns ferils.