„Það er skylda okkar Íslendinga að rækta þessi tengsl af alúð og alvöru“

Íslendingadagurinn í Gimli í Manitobafylki í Kanada var haldinn hátíðlegur í 130. skipti nú um verslunarmannahelgina, en um er að ræða helstu hátíðarhöld á vegum fólks af íslenskum uppruna í Kanada. Mikil dagskrá er í tilefni dagsins en hápunktur hennar er fjölmenn skrúðganga þar sem fulltrúar fjölmargra hópa tóku þátt. Í Gimli búa að staðaldri um 3.000 manns en á Íslendingadeginum sjálfum er talið að fjöldinn í bænum geti orðið á milli 30.000 – 40.000 manns.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra er heiðurgestur á hátíðinni í ár og í ávarpi sínu greindi hún frá samkomulagi mennta- og menningarmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis og Háskóla Íslands um aukinn stuðning við íslenskudeildina við Manitobaháskóla í WinnipegÍ því felst ráðning kennara til þriggja ára við deildina sem mun meðal annars kenna námskeið í íslenskum bókmenntum, sinna framhaldsnemum deildarinnar, hafa umsjón með sumarnámskeiði á Íslandi fyrir nemendur deildarinnar og koma að útgáfustarfsemi í tengslum við bókmennta- og menningararf Vesturfaranna og afkomenda þeirra í Norður-Ameríku.

,,Það er stórkostlegt að fá að upplifa Íslendingahátíðina hér í Vesturheimi. Tenging afkomenda Vesturfaranna við Ísland er mjög sterk og það hreyfir við manni að sjá hvernig þeir halda uppruna sínum á lofti. Það er skylda okkar Íslendinga að rækta þessi tengsl af alúð og alvöru. Með auknum stuðningi íslenskra stjórnvalda við íslenskudeild Manitobaháskóla stígum við mikilvægt skref til þess að efla tengslin við Vestur-Íslendinga enn frekar. Þeim tíðindum var ákaflega vel tekið hér á svæðinu enda hefur fólkið hér mikinn áhuga og metnað til að rækta tengslin við Ísland meðal annars í gegnum tungumálið og menninguna,‘‘ sagði Lilja.

Í tengslum við Íslendingadaginn hefur ráðherra einnig heimsótt fjölda staða á Íslendingaslóðunum í Manitoba. Má þar nefna Hvítastein (e. White Rock) þar sem fyrstu íslensku landnemarnir stigu á land árið 1875, Menningarsafnið Nýja Ísland í Gimli, Víkingagarðinn, dvalarheimilið Betel en þar búa aldraðir afkomendur íslenskra Vesturfara sem sumir hverjir tala íslensku, Íslendingabæinn Riverton þar sem minnisvarði um Sigtrygg Jónasson stendur ásamt heimili hans sem ber nafnið Engimýri. Sigtryggur tók þátt í staðarvali landnámsins og gegndi lykilhlutverki í stofnun sjálfsstjórnarsvæðisins Nýja-Ísland, að því er fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins.

Hægt er að fullyrða að Manitoba sé fjölmennasta byggðarlag Íslendinga í heiminum utan Íslands en samkvæmt Hagstofu Kanada hafa um 90 þúsund Kanadamenn gefið upp uppruna sinn sem íslenskan.