„Þetta verður fokking epískt“

Þrándur Þórarinsson og Hugleikur Dagsson eru ekki bara einhverjir þekktustu myndlistarmenn þjóðarinnar, heldur eru þeir aukinheldur náfrændur og uppeldisbræður. Þeir hafa myndgert hrylling og hasar frá blautu barnsbeini og sækja gjarnan í innblástur frá hvorum öðrum.

Og nú er komið að samsýningu þeirra frænda, sem þeir segja raunar að hafi verið í spilunum frá upphafi. Gallery Port mun halda uppá sameiginlegt afmæli þeirra (Hullsubrauðið á afmæli 5ta okt, Þrándýrið þann 7unda) með frumsýningu á stórbrotnu samstarfsverkefni Svarfdælinganna svartsýnu er ber nafnið ANDSPÆNIS.

„Í ANDSPÆNIS sækja þeir sína uppáhalds skúrka og skrímsli úr íslenskum þjóðsagnaarfi. Í hverju verki fyrir sig etja þeir saman goðsögnum. Þrándur túlkar það í málverki og Hugleikur í myndasögu. Hér er að finna bardaga eins og Skoffín andspænis Skuggabaldri, Bakkabræður andspænis Lagarfljótsormi og að sjálfsögðu Sæmund Fróða andspænis Kölska,“ segja þeir félagar í kynningartexta.

Hver tvenna telst sem eitt verk og hvert verk verður til sölu.

„Hér mætast stálin stinn og holdin hörð. Blóði mun rigna. Börn munu gráta. Þetta verður fokking epískt,“ bæta þeir við.

Hljómar eins og skyldumæting.