Þjóðin fylgir Duterte: Bæring biðst afsökunar á gönuhlaupi Íslendinga

Bæring Ólafsson fv. forsetaframbjóðandi er búsettur á Filippseyjum.

Rodrigo Duterte forseti Filippseyja hefur á réttu að standa og íslensk stjórnvöld gera rangt með framgöngu sinni í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þetta segir Bæring Ólafsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, en hann er búsettur á Filippseyjum ásamt fjölskyldu sinni og rekur þar fyrirtæki.

Bæring segir að það hafi verið algjörlega rangt af Íslandi að leggja fram tillögu gegn fullvalda ríki eins og Filippseyjum í Mannréttindaráðinu. Baráttan gegn eiturlyfjagengjum og glæpaflokkum á Filippseyjum sé alfarið innanríkismál og á forræði þarlendrar löggæslu og stjórnvalda og komi öðrum ríkjum ekki við.

„Ef þetta er það sem koma skal í Mannréttindaráðinu, má spyrja hvaða land sé næst? Er það Kína, Bandaríkin, Mexíkó, Indónesía, Tæland, Brasilía, Frakkland og Ítalía?,“ spyr Bæring í færslu sem hann birtir á ensku á fésbókinni, en hann hefur búið á Filippseyjum um árabil, þar sem eiginkona hans er borgarstjóri og hann rekur ýmis fyrirtæki. Hér á árum áður var Bæring háttsettur yfirmaður Coca Cola International víða um heim. Hann bauð sig fram til embættis forseta Íslands fyrir þremur árum.

Rose Olafsson, eiginkona Bærings, hefur verið borgarstjóri í Baroy, Lanao del Norte, á Filippseyjum þar sem þau búa ásamt börnum sínum.

Bæring bendir á að Filippseyjar hafi tekið risastökk fram á undanförnum árum, hagvöxtur sé mikill, mikil uppbygging innviða standi yfir og stórátak verið gert í að koma á röð og reglu í landinu. Þar sé lýðræði og málfrelsi og mannréttindabrot ekki vandamál í daglegu lífi fólks.

„Einu mannréttindabrotin hér eru af völdum eiturlyfjabarónanna og glæpagengja sem drepa fólk að vild. Duterte forseti hefur lýst stríði á hendur þeim og yfir áttatíu prósent þjóðarinnar fylgja honum að málum,“ bætir hann við.

„Ég er ekki stoltur af því að vera Íslendingur hér á Filippseyjum um þessar mundir. Ég vil því persónulega biðjast afsökunar á þessu gönuhlaupi landsins míns,“ segir Bæring Ólafsson.