Þórdís tekin framyfir Guðlaug Þór í utanríkisráðuneytinu sem fær umhverfismálin

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd fyrir Viljann: Rúnar Gunnarsson.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er nýr utanríkisráðherra eftir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, þar að lútandi.

Þórdís Kolbrún er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og leysir af hólmi Guðlaug Þór Þórðarson sem verður ráðherra umhverfis- og loftslagsmála, auk þess sem einhver málefni tengd orku flytjast í hans ráðuneyti. Það ráðuneyti er samkvæmt hefðinni mun veigaminna í ríkisstjórn Íslands en utanríkisráðuneytið. Á móti kemur að ríkisstjórnin hefur sagt loftslagsmál ofarlega á blaði á næsta kjörtímabili.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður nýsköpunar-, iðnaðar- og háskólaráðherra og Bjarni heldur sjálfur áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra.

Almennt er gert ráð fyrir að Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, verði forseti Alþingis.