Úr glatkistunni: „Hinn 15. apríl s.l. skeði sá atburður, að ljósmóðirin í Bárðardal, Kristlaug Tryggvadóttir, reri ein síns liðs yfir Skjálfandafljót í ofsaroki til þess að hjálpa konu í barnsnauð. Fljótið er þarna allbreitt og straumhart og má þetta teljast allmikið afrek,“ sagði í dagblaðinu Tímanum, í lok apríl fyrir sjötíu árum, eða árið 1948.
„Ljósmóðirin í Bárðardal, Kristlaug Tryggvadóttir, býr á Halldórsstöðum, sem er næstfremsti bærinn í dalnum að vestanverðu við Skjálfandafljót. Er þar höfð bátferja á fljótinu, og er báturinn að vestan. Fljótið er þó allbreitt þarna og nokkuð straumhart, svo að töluverðan knáleik þarf til að róa þar yfir án þess mikið hreki af leið, en það getur verið hættulegt, þar sem þrengsli og flúðir eru í fljótinu eigi alllangt neðar. Skammt neðan við ferjustaðinn er allmikill strengur, sem lífshætta er að lenda í, og má lítið hrekja til þess, að svo geti farið.
Hinn 15. apríl bar svo við, að konan í Engidal Sigurdrífa Tryggvadóttir, tók léttasótt, og var þegar farið að vitja ljósmóður eins og lög gera ráð fyrir. Engidalur er austan Skjálfandafljóts, nokkuð uppi á heiðinni. Sími er á öllum bæjum í Bárðardal, og var þegar símað til Kristlaugar ljósmóður á Halldórsstöðum, og hún beðin að koma á móti til þess að flýta fyrir.
Á Halldórsstöðum búa þau hjónin Kristlaug og maður hennar ein með barnahóp. Bóndinn var ekki staddur heima við, og varð ljósmóðirin því að fara frá börnum sínum, en sum þeirra eru stálpuð. Ofsarok var þennan dag, og þar sem engin brú er þarna á fljótinu, var ekki um annað að gera en nota ferjuna, eða fara yfir fljótið á hesti.
Kristlaug tók þann kostinn að róa yfir fljótið. Hratt hún bátnum á flot og reri ein yfir, og tókst það giftusamlega, þrátt fyrir hvassviðrið og nokkurn vöxt í fljótinu. Má það teljast þrekvirki af konu, því að mikinn kjark og áræði hefir þurft til. Kristlaug komst síðan að Engidal og gekk fæðingin að óskum.
Barnið fæddist aðeins hálfri stundu eftir komu ljósmóðurinnar, svo að ekki hefir miklu mátt muna, að hún næði í tæka tíð.“