Tólf vilja verða skrifstofustjóri Alþingis

Bryndís Hlöðversdóttir.

Forsætisnefnd Alþingis auglýsti hinn 20. apríl sl. embætti skrifstofustjóra Alþingis laust til umsóknar, en nefndin ræður skrifstofustjóra Alþingis til sex ára í senn. Umsóknarfrestur rann út 6. maí sl.

Tólf umsóknir bárust. Meðal umsækjenda eru þær Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og fv. ráðherra og Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari og fv. þingmaður Samfylkingarinnar.

Nöfn umsækjenda eru:

Ásthildur Magnúsdóttir, kennari.

Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari.

Hildur Eva Sigurðardóttir, forstöðumaður.

Hilmar Þórðarson, fv. sviðsstjóri rekstrarsviðs.

Inga Guðrún Birgisdóttir, mannauðsstjóri.

Ingvar Þór Sigurðsson, forstöðumaður.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari.

Kristian Guttesen, aðjunkt.

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri.

Sandra Stojkovic Hinic, verkefnastjóri.

Sigrún Brynja Einarsdóttir, skrifstofustjóri.

Þórdís Sævarsdóttir, kennari.

Forsætisnefnd fól þremur úr sínum hóp að hafa umsjón með ráðningarferlinu fyrir hönd nefndarinnar. Undirnefndina skipa Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og varaforsetarnir Guðjón Brjánsson og Bryndís Haraldsdóttir.

Þá var ákveðið að skipa þriggja manna hæfnisnefnd til að fara yfir umsóknir, meta hvaða umsækjendum verður boðið í viðtal, annast viðtöl, meta umsagnir og gera tillögu til undirnefndar forsætisnefndar um þá sem hún telur hæfasta til að gegna starfinu. Hæfnisnefndina skipa Þorsteinn Magnússon, varaskrifstofustjóri Alþingis, sem er formaður, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri. Starfsmaður nefndarinnar er Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis.

Þegar greinargerð hæfnisnefndar liggur fyrir mun undirnefnd forsætisnefndar taka lokaviðtal við þá einstaklinga sem hæfastir eru taldir til að gegna embættinu og gera tillögu til forsætisnefndar sem tekur ákvörðun um ráðningu skrifstofustjóra Alþingis, að því er greint er frá á vef Alþingis.

Nýr skrifstofustjóri Alþingis tekur við embættinu 1. september nk.