Tveir af reyndustu lögmönnum landsins aðstoðarmenn innanríkisráðherra

Hreinn Loftsson.

Jón Gunnarsson, nýr innanríkisráðherra, er þegar á fyrstu viku sinni sem ráðherra búinn að svara framkominni gagnrýni á að hann sé ekki löglærður með því að ráða til sín tvo af reyndustu lögmönnum landsins sem aðstoðarmenn.

Þetta eru þeir Hreinn Loftsson og Brynjar Níelsson, báðir á sjötugsaldri og með gríðarlega reynslu af lögmennsku og stjórnmálastörfum á undanförnum árum.

Brynjar hefur auðvitað verið þingmaður undanfarin ár og er nú varaþingmaður. Hreinn var lengi formaður einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar og hefur m.a. verið aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar þegar hann var forsætisráðherra og fjölmargra ráðherra annarra, nú síðast Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í dómsmálaráðuneytinu sl. tvö ár.

Brynjar lauk embættispróf í lögfræði HÍ 1986 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum árið 1989 og Hæstarétti árið 1998. Hann var fulltrúi yfirborgarfógetans í Reykjavík 1986–1991 og rak eigin lögmannsstofu frá árinu 1991. Brynjar var formaður Lögmannafélags Íslands 2010–2012, alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2013–2016 og alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður síðan 2016. Hann var 2. varaforseti Alþingis frá 2017, nefndarmaður og formaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sat í umhverfis- og samgöngunefnd, í velferðarnefnd og í efnahags- og viðskiptanefnd.

Hreinn lauk laganámi frá Háskóla Íslands árið 1983, var við framhaldsnám í Oxford 1984-85 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum árið 1988 og Hæstarétti árið 1993. Hann á að baki fjölbreyttan feril í lögmennsku, atvinnulífi, stjórnsýslu og sem aðstoðarmaður ráðherra í viðskipta-, utanríkis- og samgönguráðuneytunum á árunum 1983-1988, forsætisráðuneytinu árin 1991-1992 og dómsmálaráðuneytinu árin 2019-2021. Hann var sjálfstætt starfandi lögmaður á árunum 1988 til ársins 1991 og frá árinu 1992 til ársins 2019.

Hreinn hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, var meðal annars stjórnarformaður verslunarrisans Baugs, og átt sæti í ýmsum stjórnum og nefndum, auk starfs á vettvangi stjórnmála.