Stórtíðindi hafa orðið á íslenskum smásölumarkaði með þeim tíðindum frá stjórnarfundi Haga, að Finnur Árnason hefur óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri Haga hf. Þá hefur Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus einnig óskað eftir að láta af störfum hjá fyrirtækinu.
Báðir munu þeir starfa áfram hjá fyrirtækinu uns eftirmenn þeirra hafa verið ráðnir.
„Á þessum tímamótum viljum við í stjórn Haga þakka Finni fyrir hans mikilvæga framlag til félagsins,“ segir Erna Gísladóttir, stjórnarformaður Haga.
„Hann hóf hér störf árið 1998 og hefur verið forstjóri frá árinu 2005. Ferill hans hefur verið einstaklega farsæll og Hagar hafa vaxið og dafnað undir hans stjórn. Félagið var skráð í Kauphöllina árið 2011 og er nú eitt öflugasta fyrirtæki landsins með sterkan efnahag, traustan rekstur og rótgróin vörumerki. Að sama skapi viljum við þakka Guðmundi fyrir hans mikilvæga starf í þágu félagsins, sem spannar nú tæplega þrjá áratugi. Ferill hans hefur að sama skapi verið sérlega farsæll og á hann afar stóran þátt í undraverðri velgengni Bónus á íslenskum matvörumarkaði,“ bætir hún við.
Finnur segir að vel heppnuðum samruna Haga og Olís sé nú lokið og fyrsta rekstrarár að baki, þar sem markmiðum samrunans hafi verið náð.
„Á þessum tímapunkti tel ég rétt fyrir mig persónulega að staldra við og huga að öðru og á sama tíma tel ég gott fyrir Haga að nýr aðili taki við keflinu með ferskar hugmyndir í farteskinu. Framundan eru fjölmörg tækifæri, en einnig spennandi áskoranir sem félagið er vel í stakk búið til að takast á við. Mér er efst í huga þakklæti til þess samstarfsfólks og samferðafólks sem ég hef unnið með og kynnst á þeim rúmlega 22 árum sem ég hef starfað fyrir félagið. Styrkur félagsins liggur í öflugu og samhentu starfsfólki sem kann sitt fag og það hafa verið forréttindi að vera hluti af þessari liðsheild. Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum í sameiningu náð, sem leiðandi smásölufyrirtæki á Íslandi. Hér er viðskiptavinurinn ávallt í öndvegi og frá fyrsta degi hefur félagið boðið landsmönnum lægsta vöruverð á landinu og sama verð um land allt. Ég óska félaginu og samstarfsfólki mínu velfarnaðar í framtíðinni,“ segir hann.
Guðmundur Marteinsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Bónus um langt árabil, segir að erfitt verði að kveðja frábært fyrirtæki eftir hartnær þrjá áratugi:
„Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð og ég kveð það fólk sem ég hef kynnst á þessum tíma með söknuði, þá sérstaklega öflugt og frábært starfsfólk Bónus, sem og samstarfsaðila og viðskiptavini.“