Una María ekki á lista uppstillinganefndar: Áhugi á að fá Nönnu í framboð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins ásamt systur sinni, varaþingmanninum Nönnu Margréti Gunnlaugsdóttur.

Una María Óskarsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins og fv. formaður Landssambands framsóknarkvenna, er ekki á lista uppstillinganefndar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi sem kynntur verður á félagsfundi í kvöld. Hún hafði sóst eftir því að leiða listann, nú þegar ljóst er að nýr oddviti verður valinn í stað Gunnars Braga Sveinssonar þingmanns og fv. utanríkisráðherra.

Una María skýrir frá þessu á spjallsvæði Miðflokksins þar sem hún þakkar þeim sem hvatt höfðu hana til framboðs og lýst yfir stuðningi við hana. „Það gekk ekki eftir og mér var ekki boðið sæti á listanum,“ segir hún og bætir við að listinn verði án efa vel skipaður og vill fyrirfram óska sínu fólki velfarnaðar í komandi kosningum.

„Þá vil ég óska flokknum til hamingju með allar nýju konurnar sem hafa ákveðið að sækjast eftir efstu sætum á listum fyrir komandi kosningar. Eftir að ég ákvað að taka slaginn þá setti ég mig í samband við þær nokkrar og hvatti þær áfram. Sú staðreynd er alla vega sú jákvæðasta finnst mér, enda á flokkurinn einungis eina þingkonu. Við þurfum bæði konur og karla til þess að byggja upp gott starf og hafa áhrif á væntanlega kjósendur. Þá vil ég einnig þakka fráfarandi þingmanni fyrir samstarfið,“ bætir Una María við.

Una María Óskarsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins.

Á fundinum í kvöld verður kynnt tillaga uppstillinganefndar í Kraganum, eins og áður segir. Þingmaðurinn Karl Gauti Hjaltason úr Suðurkjördæmi, sem gekk til liðs við Miðflokkinn úr Flokki fólksins á kjörtímabilinu, sækist eftir sæti á listanum. Vitað er að áhugi er á því, innan uppstillinganefndar, að framkvæmdastjóri flokksins, Nanna Gunnlaugsdóttir, verði í efstu sætum listans. Hún er systir Sigmundar Davíðs, formanns flokksins, og hefur tekið sæti sem varamaður á þingi á kjörtímabilinu og er að margra mati einn af framtíðarforingjum flokksins.