Arnór Sveinsson – Jógakennari
Arnór er 34 ára uppalinn á Álftanesi, hann býr núna úti í Heiðmörk rétt við Elliðavatn.
Arnór hefur kennt Jóga og vitundartengd námskeið frá september 2013, árið sem hann lauk jógakennaranámi. Nú kennir hann flest alla tíma og er með námskeið í Prima Iceland. Þau námskeið samanstanda af Jóga, öndun, hugleiðslu, Wim Hof, slökun, tónheilun og kakó athöfnum.
Þegar skólaganga hans endaði eftir 10. bekk var hann fljótlega kominn á sjóinn og farinn að vinna fyrir sér. Hann hafði alltaf haft áhuga á jóga og andlegum málefnum en fráfall nákomins ættingja var það sem að lokum ýtti honum af stað á andlegu brautina.

,,Án þess að vita fyrir víst hvað væri í vændum þá fór svo á endanum að ég pakkaði föggum mínum og flaug austur til Tælands. Þar upphófst undarleg atburðarás þar sem örlögin og gæfan leiddu mig áfram. Ég endaði í smábænum Pai í norðurhluta landsins þar sem ég komst í kynni við munk og varði dýrmætum tíma með honum í fjöllum norður Tælands. Þar fór ég í djúpa innri vinnu og lærði hugleiðslur sem er undirstaðan í minni nálgun og leiðbeiningum. Ég fylgdi munkinum víða um landið og dvaldist meðal annars við hugleiðingar í helli. Síðan þá hef ferðast víðsvegar um heiminn og sótt fjöldan allan af námskeiðum sem tengjast Jóga, hugleiðslu og andlegri vinnu,“ segir hann í samtali við Viljann.
Meira um Arnór og hans vinnu má finna á www.yogaarise.com
Hvað er planið hjá Arnóri í sumar ?
„Í sumar verð ég með retreat eða endurnæringarhelgi 5-7 júlí og 16-18 ágúst. Ég og Þór vinur minn og kollegi verðum með Wim Hof Wilderness helgi 20.-21. júlí. Vorum með slíka helgi í júní þar sem við kenndum Wim Hof aðferðafræðina út í náttúrinni. Er reglulega með kakó athafnir, ef veður leyfir þá verða þær úti. Verð líka með Ræs vinnustæði, en ræs vinnustæðin eru 2 klst jóga tímar þar sem við köfum í ákveðið viðfangsefni.
MjaðmaRæs er vinsælasti tíminn. Það má segja að þessir tímar sé meiru athöfn heldur en jógatími. Svo mun ég líka verja tíma í að gera upp íbúðina mína sem ég er búinn að vinna í. Svo er ég að plana og undirbúa haustdagskrána. Mun bjóða upp á allskonar námskeið (jóga, öndunarnámskeið, hugleiðslunámskeið, Wim Hof námskeið) og fleiri retreat í haust og vetur. Síðan ætla ég að gefa mér viku frí og ferðast inn í landið með tjald og svefnpoka. Framtíðin lítur mjög vel út,“ bætir hann við hress og kátur.

Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað planið hjá þeim sé í sumar. – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.