„Elsku pabbi minn. Ég vil vera sú fyrsta til að óska þér til hamingju með afmælið. Áttræður. Ekki svo mikið þegar þú átt í hlut. Þú ert ungur að eilífu þótt kroppurinn gefi eftir, kannski. Þinn kraftur og þitt energí. Þín hlýja og gjafmildi. Þinn húmor og kímni. Þínar gáfur og skipulag. Þitt framlag og stefna. Þín ást og gleði. Þín þrjóska og einurð. Þín jafnaðarmennska að eilífu. Ég er ein af þeim. Bara brosa, sagðir þú ævinlega við mig þegar eitthvað bjátaði á hjá mér, og ég þakka þér fyrir að kenna mér þau einkunnarorð.“
Þannig hljómar afmæliskveðja Kolfinnu Baldvinsdóttur á fésbók í morgun í tilefni þess að faðir hennar, Jón Baldvin Hannibalsson, fv. utanríkisráðherra, sendiherra og formaður Alþýðuflokksins, fagnar áttræðisafmæli í dag.
Ekki þarf að rekja storminn kringum Jón Baldvin undanfarnar vikur, hann hefur legið undir þungum sökum um ósæmilega hegðun í garð fjölmargra kvenna, en hann er engu að síður einn litríkasti og áhrifamesti stjórnmálamaður í seinni tíma sögu hér á landi.
Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður og athafnamaður, sendir vini sínum afmæliskveðju í Morgunblaðinu í morgun og segir:
„Fáa menn veit ég jafn leiftrandi greinda, litríka og skemmtilega. Sannarlega öngvan er lagt hefur jafngjörva hönd á að skapa forsendur hins auðuga íslenska velferðarsamfélags sem aldrei hefur staðið í jafnmiklum blóma og einmitt nú. Þökk sé ötulli og einbeittri baráttu hans fyrir þeim kostakjörum sem inngangan í EES, Evrópska efnahagssvæðið, færði okkur um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.
Jóns Baldvins verður lengi minnst á Íslandi fyrir það pólitíska þrekvirki. Að sama skapi er hans hlýlega minnst í öðrum löndum sem hins djarfhuga stjórnmálamanns er fyrstur steig fram til atfylgis baltnesku þjóðunum í tvísýnni baráttu þeirra fyrir frelsi og langþráðu, endurheimtu sjálfstæði.
Undir ógnandi hótunum Rússa hvikaði utanríkisráðherrann Jón Baldvin hvergi og bauð hinni vígreifu gömlu kommúnistaþjóð birginn án þess að blikna.
Með einstöku íslensku orðfæri mælir hann jafnan óhræddur og tæpitungulaust. Eftir hann liggja ótal snjallar ritgerðir, greinar og bækur. Að minnsta kosti tveggja nýrra ritverka eftir hann er að vænta á þessu ári.
Það hefur ósjaldan gustað um Jón Baldvin Hannibalsson og sennilega aldrei sem nú. Í eðli sínu er Jón þó friðarins maður,“ segir Jakob Frímann ennfremur.
Langur stjórnmálaferill
Jón Baldvin Hannibalsson er fæddur á Ísafirði 21. febrúar 1939. Foreldrar: Hannibal Valdimarsson (fæddur 13. janúar 1903, dáinn 1. september 1991) alþingismaður og ráðherra, bróðir Finnboga R. Valdimarssonar alþingismanns, og kona hans Sólveig Ólafsdóttir (fædd 24. febrúar 1904, dáin 11. maí 1997) húsmóðir. Bróðir Ólafs Hannibalssonar varaþingmanns.
Maki (26. september 1959): Bryndís Schram (fædd 9. júlí 1938) framkvæmdastjóri, systir Ellerts B. Schrams alþingismanns. Foreldrar: Björgvin Schram og kona hans Aldís Þ. Brynjólfsdóttir.
Börn: Aldís (1959), Glúmur (1966), Snæfríður (fædd 1968, dáin 2013), Kolfinna (1970).
Stúdentspróf MR 1958. MA-próf í hagfræði frá Edinborgarháskóla í Skotlandi 1963. Framhaldsnám í vinnumarkaðshagfræði við Stokkhólmsháskóla 1963–1964. Próf í uppeldis- og kennslufræðum HÍ 1965. Framhaldsnám við Harvard-háskóla (Center for European Studies) í Bandaríkjunum 1976–1977.
Kennari í Hagaskóla í Reykjavík 1964–1970. Blaðamaður við Frjálsa þjóð 1964–1967. Skólameistari Menntaskólans á Ísafirði 1970–1979. Ritstjóri Alþýðublaðsins 1979–1982. Skipaður 8. júlí 1987 fjármálaráðherra, lausn 17. september 1988, en gegndi störfum til 28. september. Skipaður 28. september 1988 utanríkisráðherra, lausn 23. apríl 1991, en gegndi störfum til 30. apríl. Skipaður 30. apríl 1991 utanríkisráðherra, lausn 18. apríl 1995, en gegndi störfum til 23. apríl. Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum 1998–2002 og í Finnlandi 2002–2005.
Alþingismaður Reykvíkinga 1982–1998 (Alþýðuflokkur).
Varaþingmaður Vestfirðinga janúar–febrúar 1975 (Samtök frjálslyndra og vinstri manna) og nóvember–desember 1978, varaþingmaður Reykvíkinga mars–apríl 1980, mars–apríl 1981 og apríl–maí 1982 (Alþýðuflokkur).
Fjármálaráðherra 1987–1988, utanríkisráðherra 1988–1995.