Við ættum kannski að hlusta meira á hann Þorvald

Óhætt er að segja að þjóðin leggi við hlustir þegar okkar fremstu vísindamenn setja fram spár sínar á válegum tímum. Einn þeirra sem stelur senunni hvað eftir annað, er Þorvaldur prófessor Þórðarson, eldfjallafræðingur, sem talar mannamál og í fyrirsögnum, en slíkt kunna ekki allir að meta, eins og kunnugt er.

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði var þannig ekki mjög kát, þegar Þorvaldur sagði í sumar að vel geti gosið við Vellina í Hafnarfirði, ef gos á Reykjanesi héldu áfram að þróast.

Og undanfarna daga hafa Þorvaldur og annar prófessor og eldfjallafræðingur, Ármann Höskuldsson, tekið dýpra í árinni með hættuna kringum Svartsengi og Grindavík en Almannavarnir hafa gert. Þorvaldur ráðlagði fólki að gista ekki í Grindavík fyrir þremur dögum og hlaut sumstaðar bágt fyrir. Síðast um kvöldmatarleitið í gærkvöldi sagði Víðir Reynisson enga ástæðu fyrir Grindavíkinga til að yfirgefa bæinn. Þremur tímum síðar skipaði hann þeim þungbúinn að rýma bæjarfélagið þegar í stað.

Íslendingar hafa langa og góða reynslu af því að hlusta á sérfræðinga sína þegar vá stendur fyrir dyrum. Jarðvísindamennirnir okkar komast af og til í sviðsljósið og eiga þá sviðið, til dæmis prófessorar á borð við Magnús Tuma Guðmundsson, Þorvald og Ármann. Sama má segja um Kristínu Jónsdóttur á Veðurstofunni. Öll hafa þau sinn stíl í viðtölum og yfirlýsingum, en við vitum og finnum að þau gera sitt besta, lesa stöðuna og nýta sérfræðiþekkingu sína til að miðla þjóðinni. Á tímum sem þessum erum við öll Almannavarnir, eins og Víðir hefur svo oft bent okkur á, og þyrstir að vita meira, spá og spekúlera. Þannig hefur það alltaf verið; líka þegar Sigurður Þórarinsson datt næstum ofan í gossprungurnar í viðtölum við Ómar Ragnarsson og síðar Ragnar „skjálfti“ Stefánsson.

Sjálfur segir Þorvaldur nú að síst af öllu hlakki í honum, þótt viðvörunarorð hans og Ármanns hafi líklega verið mun nær lagi en það sem Almannavarnir sögðu. Nú er sjálf Grindavík undir í þróun kvikunnar og þá rifjast upp orð Þorvaldar um að betra sé að koma út eins og kjáni af og til, en hafa samt varað fólk við aðsteðjandi hættu, en þegja yfir mikilsverðum upplýsingum og deila ekki áhyggjum sínum af ótta við að rugga bátnum.

Nú er biðstaða á Reykjanesi og öll vonum við það besta. En við skulum samt hlusta meira á hann Þorvald…